Erlín Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 12. janúar 1950. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 19. október 2020. Foreldrar hennar voru Vilborg Guðsteinsdóttir, fædd í Reykjavík 10. ágúst 1927, d. 7. desember 2011, og Óskar Jensen, rafvirkjameistari og verslunarmaður í Reykjavík, f. 16. apríl 1923, d. 14. mars 1975. Systkini Erlínar eru: 1) Gunnar Guðsteinn, f. 16. júní 1948, d. 22. desember 1997, 2) Ásta, f. 18. desember 1955, 3) Finnur, f. 30. apríl 1957 og 4) Þórunn, f. 20. apríl 1964.

Erlín giftist 1971 Ástráði St. Guðmundssyni húsasmíðameistara, f. 3. mars 1946 í Reykjavík. Foreldrar Ástráðs voru Guðríður Ástráðsdóttir, f. 18. apríl 1924, d. 16. ágúst 2003, og Guðmundur Friðriksson verslunarmaður, f. 22. júlí 1920, d. 17. október 1968.

Börn Erlínar og Ástráðs eru:

1) Vilborg María, f. 4. ágúst 1975, eiginmaður hennar er Sigurður Unnar Sigurðsson, f. 1972. Börn þeirra eru: a) Ástráður Unnar Sigurðsson, f. 2000, b) Sigurlinn María, f. 2002, c) Magnús Arngrímur, f. 2007, og d) Hrafnkell Flóki, f. 2009.

2) Katrín, f. 30. júní 1979, sambýlismaður hennar er Hans Alan Tómasson, f. 1975. Börn þeirra eru: a) Erlín Katla, f. 2005, b) Ásrún Júlía, f. 2008, og c) Óskar, f. 2012.

3) Andri, f. 20. júní 1985, sambýliskona hans var Sóley Þorbjörnsdóttir, slitu þau samvistir. Barn þeirra er Íris María, f. 2014.

Erlín menntaði sig í hjúkrunarfræðum í Hjúkrunarskóla Íslands og að loknu námi fluttu Erlín og Ástráður fyrst til München í Þýskalandi þar sem hún starfaði við hjúkrun og síðar til Stuttgart þar sem hún starfaði einnig. Við heimkomuna flutti Erlín ásamt eiginmanni sínum að Eystri-Hellum í Gaulverjabæjarhreppi og hóf 1975 störf á Sjúkrahúsi Suðurlands. Samfara vinnu lagði hún stund á framhaldsnám í skurðhjúkrun og hand- og lyflæknishjúkrun. Hún lauk sérskipulögðu BSc-námi við Háskóla Íslands og meistaranámi í hjúkrunarfræðum við Royal College of Nursing, Manchester-háskóla.

Erlín gegndi deildarstjórastöðu skurðdeildar 12CD við Landspítala - háskólasjúkrahús síðustu starfsár ævi sinnar en áður gegndi hún stjórnunarstöðum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Sjúkrahús Suðurlands) og á meðferðarheimilinu Sogni. Hún tók snemma að sér kennslu á námskeiðum við Fjölbrautaskóla Suðurlands og seinna við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Erlín sat í stjórn Hjúkrunarfræðifélagsins og sinnti fjölmörgum nefndarstörfum gegnum árin. Síðustu misserin starfaði hún í verkefnum tengdum sinni sérmenntun sem skurðhjúkrunarfræðingur.

Sálumessa Erlínar fer fram frá Kristskirkju Landakoti í dag, 27. október 2020, kl. 14. Streymt verður á:

https://promynd.is/live/

Virkan hlekk á slóð má nálgast á

https://www.mbl.is/andlat

Það var fallegur dagur í september 1968 þegar á fimmta tug ungra stúlkna mættu til skólasetningar í gamla Hjúkrunaskólanum. Allar áttu sér stóra drauma, fram undan voru óvissutímar en markmiðið var það sama hjá öllum hópnum, að verða hjúkrunarkonur.

Erlín Óskarsdóttir ein úr þessum hópi hefur nú yfirgefið okkur. Hún veiktist í sumar og nokkrum mánuðum seinna er hún horfin yfir móðuna miklu. Erlín mun lifa meðal okkar Hollsystra hennar sem hinn sanni góði félagi, hún barst ekki mikið á og tróð sér hvergi fram til mannvirðinga en gekk þó sinn veg þannig að eftir henni var tekið. Hún var greind athugul og víðlesin, hógvær í umræðum og orðvör. Þegar hún talaði hlustuðum við og þegar hún hlustaði tókum við eftir því.

Erlín var mikill námshestur og mjög áhugasöm um allt sem viðkom hjúkrun og málefnum hjúkrunar. Þegar börnin uxu úr grasi bætti hún við sig í námi tók BS-gráðu í Háskóla Íslands og hélt svo áfram og lauk við masterinn og þetta nám tók hún samhliða vinnu. Dugnaður Erlínar var með hreinum ólíkindum, hún keyrði daglega yfir 100 km milli heimilis og vinnu og skólans þegar hún var í náminu. Erlín var mögunð manneskja og kölluð til ábyrgðarstarfa. Hún var deildarstjóri á skurðdeild LSH við Hringbraut hún var kennari, fræðari, góður félagi og gleðigjafi. Var dugleg að mæta á hollfundina okkar ásamt því að taka þátt í ferðalögum og gleðistundum tengdum afmælum okkar og þetta árið er hún í undirbúningsnefndinni fyrir 50 ára afmæli hollsins 2021 og sorg okkar er mjög mikil að hafa hana ekki með áfram í þeim undirbúningi.

Það er þakkarvert og lærdómsríkt að hafa gengið í gegnum lífið með Erlínu. Takk fyrir allar góðu stundirnar.

Lífs míns þegar dagur dvín

í dýrðina stíg ég inn

á sumardegi er sólin skín

ég sofna hjá þér herra minn.

(RV)

Við sendum fjölskyldu Erlínar, Ástráði, börnunum ykkar og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Skólasystra úr Hjúkrunarskóla Íslands útskrifaðra 1971

Ragna Valdimarsdóttir.