Markmiðinu náð Sunna Svanhvít Söebeck Arnardóttir, eiginkona Þórðar, gaf honum blóm eftir maraþonið, sennilega síðasta hlaupið, á laugardag.
Markmiðinu náð Sunna Svanhvít Söebeck Arnardóttir, eiginkona Þórðar, gaf honum blóm eftir maraþonið, sennilega síðasta hlaupið, á laugardag.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þórður Gunnarsson er um margt óvenjulegur hlaupari. Hann keppti í fyrsta sinn 2018, þegar hann hljóp 10 km, fór hálft maraþon í fyrra og maraþon sl. laugardag. „Ég hef aldrei verið í íþróttum fyrir utan badminton vikulega á veturna og aldrei verið hlaupari en þegar ég ákveð eitthvað stend ég við það. Ég ákvað að hlaupa ekki bút að þessu loknu, reyni að standa alltaf við það sem ég segi og nú tekur eitthvað annað við,“ segir fyrrverandi hlauparinn.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þórður Gunnarsson er um margt óvenjulegur hlaupari. Hann keppti í fyrsta sinn 2018, þegar hann hljóp 10 km, fór hálft maraþon í fyrra og maraþon sl. laugardag. „Ég hef aldrei verið í íþróttum fyrir utan badminton vikulega á veturna og aldrei verið hlaupari en þegar ég ákveð eitthvað stend ég við það. Ég ákvað að hlaupa ekki bút að þessu loknu, reyni að standa alltaf við það sem ég segi og nú tekur eitthvað annað við,“ segir fyrrverandi hlauparinn.

Sunna Svanhvít Söebeck Arnardóttir, eiginkona Þórðar, hefur nokkrum sinnum hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og þegar hann keyrði hana í hlaupið 2017 spurði hún hann hvort hann vildi ekki bara hlaupa líka. „Ég svaraði því til að ég ætlaði að hlaupa 10 kílómetra á næsta ári, hálft maraþon 2019 og maraþon í tilefni af 60 ára afmælinu mínu 2020.“ Hann segist nánast ekkert hafa æft fyrir fyrstu tvö hlaupin, en hafi hlaupið 10 km á rúmlega 58 mínútum og hálft maraþon á um einni klukkustund og 55 mínútum eftir að hafa hlaupið lengst 12 km í undirbúningnum. „Þetta eru engin afrek heldur var ég bara að standa með sjálfum mér og eigin samvisku,“ segir hann.

Lengst 18,3 km í sumar

Þórður byrjaði að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið 31. mars, hljóp vikulega í sumar og lengst 18,3 km. Þegar því var aflýst vissi hann ekki hvað hann ætti að gera fyrr en hann heyrði af fyrirhuguðu haustmaraþoni áhugahlaupara 24. október. „Þegar það var líka blásið af hugsaði ég með mér að ég nennti ekki að bíða lengur og ákvað að halda mínu striki, veðurgluggi opnaðist á laugardaginn og ég stóð við mitt.“

Í hlaupunum 2018 og 2019 safnaði Þórður áheitum fyrir Parkinson-samtökin. Fyrir skömmu missti hann vin og frænda barna sinna og ákvað að safna áheitum til styrktar ekkjunni. „Ég hljóp í nafni hans og safnaði á facebooksíðunni minni.“

Þórður leggur áherslu á að ekki hafi verið um hetjudáð að ræða. Hann hafi aðeins hugsað um að ljúka hlaupinu, sungið með sjálfum sér og fylgst vel með gangi mála. Hann hafi þekkt leiðina vel frá Fossvogi og út Ægisíðu en hafi byrjað og endað við rafstöðina í Elliðaárdal eftir að hafa farið tvo hringi með nokkrum slaufum við Nauthólsvík. Fjölskylda og vinir hafi séð um drykkjarstöðvar og hann hafi útbúið nokkurs konar salerni í vinnubílnum ef á þyrfti að halda og hann hafi ávallt verið í grennd.

„Þetta gekk áfallalaust,“ segir Þórður, sem segist samt hafa verið með strengi á sunnudag en þeir hafi verið horfnir í gær. „Heilsan er fyrir öllu og ég ætla að njóta hennar.“ Hann bætir við að í raun sé hálfmaraþonið eftirminnilegra. Þá hafi hann tekið þátt í brauðtertukeppni eftir hlaupið, útbúið kökuna á föstudagskvöldi, hlaupið morguninn eftir, farið í sund og heita pottinn, síðan heim til að ná í brauðtertuna og komið á síðustu stundu með hana í Listasafn Reykjavíkur. „Allar götur voru lokaðar og því þurfti ég að hlaupa með tertuna frá Melatorgi og niður í bæ. Ég held að enginn annar hafi lokið hálfmaraþoni með hlaupi með brauðtertu í keppni í lokin.“