Tengsl Tinna Þorsteinsdóttir Tölgyes og Ylfingur Kristján Árnason leika sér saman á Waldorf-leikskólanum. Forfeður þeirra eiga sögulega tengingu.
Tengsl Tinna Þorsteinsdóttir Tölgyes og Ylfingur Kristján Árnason leika sér saman á Waldorf-leikskólanum. Forfeður þeirra eiga sögulega tengingu. — Morgunblaðið/Íris
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Tinna Þorsteinsdóttir Tölgyes, þriggja ára, gefur í augnablikinu ekki mikið fyrir skrýtnar sögur móður sinnar um að langafi vinar hennar, Ylfings Kristjáns Árnasonar, hafi bjargað langafa hennar, Ungverjanum Mikael Franssyni, úr flóttamannabúðum og hjálpað honum til Íslands árið 1956. Móðir Tinnu, Hulda Jónsdóttir Tölgyes, segist þess þó fullviss í samtali við Morgunblaðið að Tinna eigi eftir að skilja þetta þegar fram líður, enda er þetta auðvitað örlagaþrungin frásögn.

Dr. Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttarlögmaður, langafi Ylfings, var um miðja öld í stjórn Rauða krossins á Íslandi og hafði frumkvæði að flugferð til Vínarborgar þar sem sóttir skyldu Ungverjar sem orðið höfðu landflótta vegna ástandsins í heimalandinu eftir byltinguna gegn sovéskum yfirráðum. Meðal þeirra sem Gunnlaugi tókst fyrst að telja á að koma til þessa kalda og fjarlæga lands í norðri og hefja þar nýtt líf var hinn tvítugi Mikael, sem hafði verið í hernum þegar byltingin braust út. Mikael mælti enga ensku en þó örlitla latínu, sem gerði honum og Gunnlaugi kleift að skilja hvor annan, alltént svo langt sem latínan náði.

Öll manneskjur með sama rétt

Þegar Mikael sjálfur var orðinn sannfærður um Íslandsför fór hann með móðurmál sitt að vopni og sannfæringarkraft og fékk fleiri Ungverja um borð í vélina, sem átti ekki að fara af stað fyrr en hún væri full. Að lokum voru Ungverjarnir 52 sem flugu til Íslands og gistu fyrstu nóttina í Hlégarði á jólanótt árið 1956. Mikael aðlagaðist hér tilbrigðum loftsins, varð listamaður, auglýsingateiknari, vann við útstillingar og eignaðist fjölda afkomenda ásamt eiginkonu sinni Kristjönu Ragnheiði Birgis, meðal annars þær Huldu og Tinnu.

„Mig langaði að segja þessa sögu vegna þess að ég held að við þurfum öll áminningu um að við erum öll bara manneskjur sem eiga rétt á sömu mannréttindum. Án Gunnlaugs hefðum við sem berum nafn afa ekki orðið hluti af þessari tilveru. Sagan hans afa hefði orðið önnur og hann hefði ekki eignast þessa fallegu fjölskyldu hérna á Íslandi,“ segir Hulda. Hún segir þessa sögu áminningu um að Íslendingar hafi fulla ástæðu til þess að bjóða fólk velkomið sem hingað kemur vegna neyðar í heimalandi sínu, því það er alveg eins víst að það verði mikilvægur hluti af íslensku samfélagi.