„Fólkið“ setur þingið til hliðar og skipar bráðabirgðastjórn...

Bankaáfall varð í kjölfar „útrásarinnar“. Djarfur hópur viðskipta- og bankamanna hér notfærði sér út í æsar að um skamma hríð lá ógrynni fjár á lausu í alþjóðlegu fjármálakerfi svo verkefnið virtist vera það helst að koma því út á markað svo það skilaði lánveitendum arði, sem er blóð þeirra og súrefni. Svo óheppilega vildi til að um þær mundir hafði íslenska bankakerfið aðeins um skamma hríð fótað sig utan vébanda ríkisforsjár. Fjöldi banka á Vesturlöndum, sumir með aldalanga reynslu, misstu sig með öðrum orðum. Sumir stóðust áhlaupið sem varð, annaðhvort vegna þess að þeir stóðu á fyrningum eða létu ekki glepjast eins illa og aðrir. Seðlabankar, oft með atbeina ríkisvaldsins, völdu sums staðar úr „mikilvæga banka“ á meðan aðrir rúlluðu.

Almenningur hér tók skiljanlega þátt í dansinum og gaf óskhyggju sinni lausan tauminn. Stjórnvöld í landinu, nema Seðlabankinn, töldu ástæðulaust að efast um fullyrðingar stjórnenda nýju bankanna um að allt væri í góðu lagi. Helstu galgoparnir, sem stigu lánaöldurnar af mestu kappi, voru þvert á móti hafnir til skýja og vegsamaðir sem „útrásarvíkingar“ af þeim sem síst skyldi, og taldir hafi komist á meiri fjárfestingarferð en útlendir sem ekki höfðu víkingaeðli í sínum genum. Allt ýtti þetta á andvaraleysi fólksins og í framhaldi undir skiljanleg vonbrigði þess, reiði og spurningar um réttlæti og hefnd. Þeirri för var að hluta stýrt og hún kostuð af þeim sem síst skyldi. Og þeir stjórnmálamenn sem ákafast höfðu ýtt undir gagnrýnisleysi og kröfur um að hvergi mætti hemja taumleysið skolaði inn í ríkisstjórn á öldufaldi „búsáhaldabyltingar“.

Á daginn kom að hin „hreina vinstristjórn,“ sem réttlát reiði ýtti í valdastóla með vel skipulögðum áróðri, taldi einstakt tækifæri hafa runnið upp fyrir sig. Í öðrum ríkjum var hávaðalaust tekið til við að rétta skútur af. Hér voru áróður, hefnd og öfugsnúnar sakbendingar settar í öndvegi. Einstakt tækifæri væri til að kollvarpa þjóðfélaginu og skófla þjóðinni óviljugri inn í ESB. Því var glórulaust logið upp að stjórnarskráin hefði eitthvað haft með bankaáfall að gera hér á landi. Engin önnur þjóð blandaði sinni stjórnarskrá í það þegar kúrsinn var réttur af eftir bankahrunið. Allur þessi gauragangur, sem Ríkisútvarpið tók fullan þátt í, laskaði stjórnmálastarfsemi í landinu og enn sem komið er virðist það varanlegt. Furðuflokkar komust til áhrifa t.d. í borgarstjórn (og gufuðu svo upp) og hófu skuldasöfnun sem enn stendur. Og í þinginu, án þess þó að hafa nokkur raunveruleg áhrif. Mest áhrif hafði einn delluflokkur þingsins þegar hann setti heimsmet í 15 metra hlaupi þann 20. október sl. Fram að þessu hefur ekki verið viðurkennt hver voru markmið „búsáhaldabyltingar“ og óstjórnarinnar í kjölfarið. Atburðarásin talar þó sínu máli.

Um helgina í þættinum Sprengisandi var ásamt öðrum góðkunnur lögmaður, Ragnar Aðalsteinsson, sem aldrei leynir því hvar hans pólitíska hjarta slær. Hann var að útskýra hvernig staðið væri að breytingum á stjórnarskrá hér að fyrirmælum hennar sjálfrar sem svipar til þess sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum. En Ragnar afgreiddi þá aðferð sem ónýta! og sagði svo: „Nú ef það gengur ekki og ef þjóðin er áköf um að ná til sín þessu valdi, sem hún hefur eðli málsins samkvæmt, þá verður hún að taka völdin. Það hefði kannski verið hugsanlegt eftir hrunið, að fólk hefði sent þingið og stjórnina heim og stofnað til bráðabirgðastjórnar, sem hefði haft það hlutverk að búa til stjórnlagaþing og semja nýja stjórnarskrá“.

Kristján Kristjánsson (stjórnandi) hváði, svo sem vonlegt var: „Ég skil nú ekki alveg hvert þú ert kominn núna! Þjóðin hefði sent þingið heim... hvernig hefði...? Ég er að velta fyrir hvernig þetta hefði bara gerst?“

Ragnar: „Það hefði bara verið með einföldum... Þetta gerist í heiminum á hverjum degi.“

Björg (lagaprófessor): „Það eru byltingar sem að gerast.“

Kristján: „Já, já, ég veit. Ég kann orðið bylting en ég ímynda mér ekki að það sé málið.“

Ragnar: „Það er valdarán. Það þarf ekki að vera að sjálfsögðu neitt blóðugt eða ofbeldi fólgið í því.“

Kristján: „Nei nei, en þú ert sem sagt að tala um það?“

Ragnar: „Ég er að tala um það, já. Það var viss staða, sem kom upp [eftir bankahrunið] sem hefði getað leitt til þessarar niðurstöðu, en það voru engir til þess að leiða slíkt á þeim tíma.“

Það munaði satt besta að segja mjög litlu að hið fámenna íslenska lögreglulið næði að bjarga því sem bjarga mátti. Og mikið vantar upp á að íslensk stjórnvöld hafi sýnt það síðan að þau meti þær fórnir að verðleikum.