[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Fleiri hafa nú kosið utan kjörfundar eða fyrir kjördag í bandarísku forsetakosningunum en gerðu það í kosningunum 2016, þrátt fyrir að enn sé vika til kjördags.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Fleiri hafa nú kosið utan kjörfundar eða fyrir kjördag í bandarísku forsetakosningunum en gerðu það í kosningunum 2016, þrátt fyrir að enn sé vika til kjördags. Á sunnudaginn höfðu rúmlega 59 milljónir Bandaríkjamanna greitt atkvæði, annaðhvort með pósti eða með því að kjósa á þartilgerðum kjörstöðum sem eru opnaðir fyrir tímann, en um 57 milljónir Bandaríkjamanna nýttu sér þann kost í forsetakosningunum 2016. Þá hefur kjörsókn meðal fólks á aldrinum 18-29 stóraukist miðað við fyrir fjórum árum.

Hin mikla kjörsókn þykir endurspegla þá miklu spennu sem ríkir vegna kosninganna, en bæði demókratar og repúblikanar hafa sagt kosningarnar 2020 einhverjar þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið í sögu Bandaríkjanna. Er því gert ráð fyrir að um 150 milljónir manna muni kjósa að þessu sinni, en það yrði um 13 milljónum fleiri en kusu fyrir fjórum árum.

Miðað við bæði skoðanakannanir og skráningu kjósenda hafa nokkru fleiri demókratar en repúblikanar nýtt sér þann kost að kjósa utan kjörfundar, en gert er ráð fyrir að hinir síðarnefndu muni fjölmenna á kjörstað á kjördaginn sjálfan, 3. nóvember.

Minni munur í lykilríkjunum

Sem fyrr leiðir Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og frambjóðandi Demókrataflokksins, í öllum helstu skoðanakönnunum, bæði á landsvísu og í helstu lykilríkjum sem ráða munu því hver verður næsti forseti Bandaríkjanna, þó að nokkuð virðist hafa dregið saman með honum og Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þegar meðaltal heimasíðunnar Realclearpolitics.com er skoðað sést að Biden er nú með um átta prósentustiga forystu á landsvísu, sem aftur minnkar niður í um fjögur prósentustig þegar lykilríkin eru skoðuð saman.

Í Pennsylvaníu er munurinn á fylgi Bidens og Trumps nú rétt rúmlega fimm prósentustig, sem þýðir að ríkið er talið líklegra en ekki til þess að kjósa Biden frekar en Trump, ef kosið væri í dag.

Hafa ber þó í huga að Trump vann ríkið fyrir fjórum árum með allra minnsta mun, eftir að kannanir höfðu bent til þess að Hillary Clinton myndi vinna ríkið og þá 20 kjörmenn sem því fylgja.

Trump hyggst án efa endurtaka leikinn, en hann hélt þrjá kosningafundi í Pennsylvaníu í gær, í þeirri von að hann gæti snúið stöðunni sér í vil.

Skipunin breytir litlu

Þó að eitthvað hafi minnkað á munum benda kannanir ekki til þess að meintir tölvupóstar Hunters Biden hreyfi við kjósendum, alla vega ekki enn sem komið er, þrátt fyrir að Trump og aðrir repúblikanar haldi þeim mjög á loft í baráttunni.

Þá er óvíst hvort skipun Amy Coney Barrett í stöðu hæstaréttardómara muni breyta nokkru um niðurstöðu kosninganna, en seint í gærkvöld var útlit fyrir að meirihluti repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings myndi samþykkti skipan hennar, eftir nokkurt þref um helgina. Demókratar í deildinni reyndu þá að fá atkvæðagreiðslunni frestað þar til eftir kosningar, en einungis tveir þingmenn repúblikana af 53, þær Lisa Murtowski frá Alaska og Susan Collins frá Maine, stóðu með demókrötum.

Skipan Barrett hefur orðið að kosningamáli, þar sem deilur sköpuðust um hvort of skammt væri til kosninga til þess að rétt væri að útnefna og staðfesta nýjan dómara í Hæstarétt. Kannanir benda hins vegar ekki til að málið hafi orðið til þess að láta fólk skipta um skoðun, heldur hafi það frekar orðið til þess að ýta undir fjáröflun hjá frambjóðendum flokkanna til Bandaríkjaþings.