Viðar Örn Kjartansson
Viðar Örn Kjartansson
Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson náði tveimur stórum áföngum í markaskorun á ferli sínum þegar hann skoraði mark Vålerenga í jafnteflisleik gegn Kristiansund, 1:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrrakvöld.

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson náði tveimur stórum áföngum í markaskorun á ferli sínum þegar hann skoraði mark Vålerenga í jafnteflisleik gegn Kristiansund, 1:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrrakvöld. Hann hefur nú skorað 150 mörk í deildakeppni á ferlinum, í 339 leikjum. Viðar skoraði 38 mörk fyrir Selfoss, tvö fyrir ÍBV og 13 fyrir Fylki áður en hann hóf atvinnuferilinn með Vålerenga árið 2014. Viðar hefur nú skorað 97 mörk í deildakeppni erlendis, í Noregi, Kína, Svíþjóð, Ísrael, Rússlandi og Tyrklandi.

Um leið er hann orðinn fimmti markahæsti Íslendingurinn erlendis. Hann fór uppfyrir Ásgeir Sigurvinsson sem skoraði 96 mörk fyrir Standard Liege, Bayern München og Stuttgart á árunum 1973 til 1990. Nú eru Heiðar Helguson, Eiður Smári Guðjohnsen, Alfreð Finnbogason og Arnór Guðjohnsen þeir einu sem hafa skorað fleiri deildamörk fyrir erlend félög. vs@mbl.is