Vinnutörn lokið Samhentur hópur starfsmanna Ísfélagsins á Þórshöfn.
Vinnutörn lokið Samhentur hópur starfsmanna Ísfélagsins á Þórshöfn. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn „Þetta hefur verið einstaklega góð vertíð og gengið mjög vel allan tímann,“ sagði Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn, þegar Sigurður VE sigldi í höfn í góðu veðri með síðasta síldarfarminn. „Þetta er líklega mesta magn sem fryst hefur verið á sumar- og haustvertíð hjá okkur hingað til.“

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

„Þetta hefur verið einstaklega góð vertíð og gengið mjög vel allan tímann,“ sagði Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja á Þórshöfn, þegar Sigurður VE sigldi í höfn í góðu veðri með síðasta síldarfarminn. „Þetta er líklega mesta magn sem fryst hefur verið á sumar- og haustvertíð hjá okkur hingað til.“

Skip Ísfélagsins, Heimaey og Sigurður, hafa komið í land með hágæðasíld á vertíðinni en þessi öflugu skip fara einstaklega vel með aflann sem gerir það að verkum að hægt er að vinna hágæðavöru úr síldinni.

Frystingu síðasta farmsins lauk um helgina og mannskapurinn getur slakað aðeins á eftir mikla og góða vinnutörn í sumar og haust.

Samfelld vinna

„Það hefur verið nánast samfelld vinna frá upphafi vertíðar,“ sagði Siggeir, „makrílfrysting hófst í júlílok en síldin tók svo við í byrjun september og unnið hefur verið á vöktum allan sólarhringinn. Það má eiginlega segja að allt hafi hjálpast að til að gera þessa síldarvertíð framúrskarandi; góð síld, góð veiði og meira að segja gott veður. Einnig munar miklu að stutt sigling er á miðin, hér rétt austan við okkur, það er aðeins um átta tíma sigling á miðin.“

Makrílvertíðin var aftur á móti mun snúnari því mestallur makríllinn veiddist í síldarsmugunni en þangað er yfir 30 klukkustunda stím. Eins var makríllinn ekki í góðu ástandi hluta af vertíðinni.

Nægur mannskapur var til staðar fyrir þessa miklu vinnu, ekki óvæntar uppákomur og engin kórónuveirusmit hafa greinst. Siggeir sagði að vissulega hefðu menn verið í sífelldri viðbragðsstöðu hjá Ísfélaginu, meiri og harðari umgengnisreglur og þrif því það hefði verið stórmál ef vinnsla hefði lamast vegna smits á hávertíðinni.

„Hér höfum við verið heppin en allt starfsfólk hefur tekið saman höndum af mikilli ábyrgð og því hefur vertíðin gengið áfallalaust, það ber að þakka,“ sagði Siggeir og ber starfsfólki Ísfélagsins vel söguna.

Síldin er ýmist heilfryst, flökuð án roðs eða unnin í bita eða svokallaða flapsa, þar sem flökin eru ekki alveg aðskilin heldur hanga saman á roðinu. Róbótar eru einnig í vinnslusalnum og létta erfiði af mannskapnum, líkt og aðrar framfarir í tækni og búnaði hjá félaginu.

Vinnslu þessa síðasta afla síldarfarms lauk sl. laugardag en þá tóku við þrif og frágangur og vinnsla bolfisks hefst að því loknu. Um 3.000 tonn bíða nú í frystigeymslu Ísfélagsins en flutningaskip er væntanlegt.

Í vertíðarlok hefur Ísfélagið haldið lokahóf fyrir starfsfólkið og alla aðra sem að hafa komið á einhvern hátt en aðstæður núna bjóða ekki upp á það að réttlætanlegt sé að stefna stórum hópi fólks saman. Reynt var þó að gera starfsfólki glaðan dag eftir föngum og bauð Ísfélagið upp á pítsuhlaðborð fyrir bæði dag- og næturvakt í kaffistofunni en aldrei eru allir þar í einu. Eftirrétturinn verður svo í boði síðasta sólarhringinn því vegleg terta bíður starfsfólks í kaffistofunni. „Það verður svo vonandi hægt að gera sér glaðan dag síðar og halda upp á góða vertíð,“ sagði Siggeir Stefánsson framleiðslustjóri eftir langa og góða vinnutörn.

Dýpkunarframkvæmdir standa nú yfir í höfninni en byrjað var í júlílok á sandhreinsun hafnar. Innsiglingarrennan verður dýpkuð niður í 9,5 metra í þessum áfanga en mikil þörf er á að innri hluti hafnar verði einnig tekinn í sömu dýpt. Umsvif aukast stöðugt í höfninni og skipin stækka, sem kallar á meira rými að öllu leyti ásamt stækkun viðlegukanta.