Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Eftir Sigurð Oddsson: "Hvað skyldi heildarkostnaður vera orðinn mikill og hversu mikið hafa lögfræðingar fengið frá „Rauða krossinum“? Ég meina skattgreiðendum."

Ráðherrar sem vilja fara að lögum í málefnum hælisleitenda eru ásakaðir um tilfinningarleysi og mannvonsku af lögfræðingum Rauða krossins. Tilgangurinn er að tefja framgang mála með því að móta skoðanir almennings og hvetja til mótmæla. Mótmæla því að hælisleitendum, sem skv. lögum eru ekki hælisleitendur, sé vísað úr landi.

Það er ekki hægt annað en finna til með ráðherrum sem verða fyrir árásum Rauða krossins eftir að Útlendingastofnun hefur komist að niðurstöðu um brottvísun. Ráðherrarnir hafa sjálfir komið sér í þessa stöðu með eftirgjöfum sem kalla á fleiri hælisumsóknir og saga brottvísana endurtekur sig. Alþingi ber ábyrgð á ástandinu með aðgerðaleysinu. Lausn þessa vandamáls ætti að hafa forgang á brennivín í matvörubúðir og breytingu á nafnalögum.

Af ótta við að verða kallaðir rasistar þora fáir að koma ráðherrunum til varnar. Alþingi virðist ekki sjá að með 400-500 miljarða fjárlagahalla og 10-15% atvinnuleysi er ekkert vit í að halda landamærum opnum á grundvelli Schengen-samkomulagsins. Niðurstaðan er að inn streymir fólk sem hefur keypt farseðil aðra leiðina og biður um hæli. Margir sem koma hafa fengið hæli í öðrum löndum og eiga engan rétt á hæli hér.

Íslendingur, sem kom frá Sviss í sumar með millilendingu, sagði engan hafa fengið að fara frá borði í Kaupmannahöfn án þess að sýna gilt vegabréf. Við ættum að fara eins að. Gera flugfélögum skylt að flytja frá landinu á eigin kostnað þá sem við tökum ekki við. Í viðbót við skilyrði um gilt vegabréf ætti að sýna farseðil frá landinu og að farþegi eigi fyrir framfærslu þar til hann fer. Flugvélar fengju ekki heimild til flugtaks fyrr en þetta hefði verið skoðað. Áhrifin kæmu strax fram í því að færri kæmu sem ekki ættu erindi til Íslands og Útlendingaeftirlitið fengi frið til að ljúka þeim málum sem eru í vinnslu.

Allir þessir fólksflutningar byggjast á skipulagðri glæpastarfsemi. Líklega er ódýrast að komast í ofhlöðnum bátum til Grikklands og Ítalíu. Miðað við þau lönd er Ísland, líkt og Saga Class, mikið dýrara og jafnvel innifalið í verði tenging við lögfræðinga Rauða krossins þegar hingað er komið. Það er dýrt að koma með fjölskylduna í flugi. Þeir sem þannig koma eru í allt annarri stöðu en bátafólkið og nauðsynlegt að kanna bakgrunn þeirra ofan í kjölinn. Hvaðan komu þeir og hvers vegna til Íslands?

Það fyrsta sem ég man eftir Rauða krossinum er frá öskudeginum þegar safnað var í bauk með rauðum krossi. Síðan fylgdist maður með Rauða krossinum senda lækna og hjálp þangað sem voru náttúruhamfarir eða stríðsátök. Nú er Rauði krossinn með tugi lögfræðinga í vinnu og helstu fréttir eru hvernig þeim gengur að tefja mál hælisleitenda. Allt á kostnað skattgreiðenda. Hvað skyldi heildarkostnaður vera orðinn mikill og hversu mikið hafa lögfræðingar fengið frá Rauða krossinum? Ég meina skattgreiðendum.

Ég fór að velta kostnaðinum og forgangsröðinni fyrir mér fyrir nokkrum vikum eftir fréttir um fjáröflun fyrir dreng frá Hornafirði, sem þurfti að komast til læknis í útlöndum. Svo voru nú um helgina sjónvarpsfréttir um konu með MS-sjúkdóm sem heilbrigðiskerfið náði ekki utan um.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Sigurð Oddsson