Dýrafjörður Beinn og breiður vegur liggur frá göngunum og út með firði.
Dýrafjörður Beinn og breiður vegur liggur frá göngunum og út með firði. — Ljósmynd/Framkv.eftirlit Dýrafjarðarganga
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fyrsta daginn sem Dýrafjarðargöng voru opin fyrir almenna umferð, síðastliðinn sunnudag, fóru 827 ökutæki um þau, samkvæmt teljara Vegagerðarinnar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrsta daginn sem Dýrafjarðargöng voru opin fyrir almenna umferð, síðastliðinn sunnudag, fóru 827 ökutæki um þau, samkvæmt teljara Vegagerðarinnar. Átt er við ferðir því öruggt má telja að margir hafi farið fram og til baka og jafnvel oftar en það.

Samsvarar þessi umferð fimm til sex sinnum daglegri meðalumferð um Hrafnseyrarheiði, fjallveginn sem göngin leysa af hólmi.

Dýrafjarðargöng voru opnuð við athöfn sl. sunnudag. Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri í umferðardeild Vegagerðarinnar, segir að búast megi við því að margir hafi farið um göngin á sunnudag fyrir forvitni sakir. Jafnvægi komist ekki á fyrr en eftir einhverja daga og jafnvel vikur og þá sé hægt að meta áhrif þeirra á umferð.

Eykst umferð á suðurleið?

Telur Friðleifur Ingi fróðlegt að fylgjast með því hvort tilkoma ganganna dragi úr umferð um þjóðveginn um Ísafjarðardjúp, það er að segja hvort íbúar á norðanverðum Vestfjörðum velji frekar suðurleiðina en norðurleiðina þegar þeir fara til Reykjavíkur. Tíminn verði að leiða það í ljós.

Reiknað frá Ísafirði voru vegalengdir á norður- og suðurleið svipaðar áður en göngin voru opnuð en menn fóru meira norðurleiðina því hún er greiðfærari allt árið. Suðurleiðin styttist um 27 km með tilkomu Dýrafjarðarganga og er sú leið nú um 420 kílómetrar en Djúpleiðin 455 kílómetrar, reiknað frá Ísafirði. Þess ber að geta að vegurinn um Dynjandisheiði hefur ekki verið endurnýjaður og enn er eftir að leggja nýjan veg um Gufudalssveit. Enn eru því malarkaflar og erfiðir fjallvegir á þeirri leið og Djúpleiðin því greiðfærari, að minnsta kosti á vetrum.