Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee lét ekki nægja að setja Norðurlandamet í sundi í Ungverjalandi um helgina. Hann setti Norðurlandamet tvo daga í röð. Norðurlandaþjóðirnar hafa í gegnum áratugina átt sterkt sundfólk.
Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee lét ekki nægja að setja Norðurlandamet í sundi í Ungverjalandi um helgina. Hann setti Norðurlandamet tvo daga í röð.

Norðurlandaþjóðirnar hafa í gegnum áratugina átt sterkt sundfólk. Fyrir vikið hefur ekki mörgum Íslendingum tekist að setja Norðurlandamet í sundi. Samkvæmt bókhaldi Morgunblaðsins eru það þau Guðjón Guðmundsson, Eðvarð Þór Eðvarðsson, Örn Arnarson, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton sem hafa náð því.

Forvitnilegt væri að vita hvort einhver annar íslenskur íþróttamaður hafi sett Norðurlandamet tvo daga í röð. Mér finnst það ólíklegt en svo sem ekki útilokað. Það gæti mögulega hafa gerst í frjálsum en erfitt að giska á slíkt út í loftið.

Anton keppir nú í atvinnumannadeild í Ungverjalandi eins og fram kom í blaðinu í síðustu viku. Þar er keppt í liðakeppni og er keppnisfyrirkomulagið sett fram þannig að aðlaðandi sé fyrir sjónvarpsáhorfendur.

Virðist þetta vera viðleitni til að auka sjónvarpsáhorf á íþróttina en einnig að fjölga verkefnum fyrir sundfólk í háum gæðaflokki. Þau keppa ekki ýkjaoft á ári og stundum vantar verkefni á milli stórmóta.

Sundhreyfingin virðist vera meðvituð um að markaðssetning skiptir æ meira máli til að lifa af samkeppni. Íþróttagreinarnar eru ekki bara í samkeppni innbyrðis heldur einnig í samkeppni við alla þá afþreyingu sem í boði er. Gamalgrónar íþróttagreinar geta ekki leyft sér að sofa á verðinum. Ekki er hægt að treysta á að vinsældir vari að eilífu.