[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM kvenna Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Svíþjóð á Ullevi-vellinum í Gautaborg í undankeppni EM í dag.

EM kvenna

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Svíþjóð á Ullevi-vellinum í Gautaborg í undankeppni EM í dag.

Íslenski hópurinn hélt til Svíþjóðar á þriðjudaginn í síðustu viku og hefur því haft góðan tíma til þess að undirbúa sig fyrir verkefnið.

Þá er liðið fullt sjálfstrausts þessa dagana eftir frábæra spilamennsku gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM í september en stelpurnar unnu þá 9:0-stórsigur gegn Lettum hinn 17. september og gerðu svo 1:1-jafntefli gegn Svíþjóð 22. september. Báðir leikirnir fóru fram hér á landi á Laugardalsvelli.

Það voru yngstu leikmenn Íslands sem stálu fyrirsögnunum eftir leikina tvo en þær eru allar fæddar á árunum 2000 til 2001 og hafa fengið viðurnefnin aldamótabörnin í fjölmiðlum eftir frammistöðu sína í september.

Stjarna Sveindísar Jane Jónsdóttur skein einna skærast en hún lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Lettum, skoraði tvívegis, og þá lagði hún upp mark Elínar Mettu Jensen gegn Svíþjóð.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék sína fyrstu mótsleiki með liðinu en hún var á skotskónum gegn Lettum, ásamt því að leggja upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.

Þá lék Alexandra Jóhannsdóttir landsleiki númer sex og sjö gegn Lettum og Svíum en þrátt fyrir það spilaði hún eins og hún væri á meðal reyndustu leikmanna liðsins, svo örugg var hún á boltanum.

Allar þrjár leika með Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, en það má fastlega gera ráð fyrir því að þær verði allar í byrjunarliðinu gegn Svíþjóð í dag.

Trúin til staðar

Sænskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um leikmennina í aðdraganda leiksins og verið duglegir að orða þær við stærstu lið Svíþjóðar.

„Það mikilvægasta sem við tökum með okkur er trúin á að geta unnið leikinn,“ sagði Alexandra Jóhannsdóttir í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það var smá skrekkur í okkur í fyrri hálfleik gegn þeim heima og við vorum aðeins passívar. Svo í seinni hálfleik vorum við síst lakari aðilinn í leiknum og sýndum að við getum alveg sótt á þær og spilað framarlega á vellinum.

Við vorum búnar að fara virkilega vel yfir þær fyrir leikinn og þær litu mjög vel út á öllum myndbandsklippum. Ósjálfrátt þá kannski fer maður aðeins inn í skelina en þegar í leikinn var komið gleymdi maður því alveg að þetta var bronsliðið frá HM 2019.

Við í Breiðabliki fengum frábæra reynslu gegn þessum stærri liðum þegar við mættum PSG í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og sú reynsla hjálpaði okkur klárlega fyrir leikinn gegn Svíunum,“ bætti Alexandra við.

Tölfræðin hliðholl Svíum

Íslenska liðið hefur ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum gegn sænska liðinu.

Alls hafa liðin mæst sextán sinnum frá árinu 1982 og hefur Svíþjóð tólf sinnum fagnað sigri, tvívegis hafa liðin gert jafntefli og tvívegis hefur íslenska liðið farið með sigur af hólmi.

Ísland vann Svíþjóð 12. mars 2014 á Algarve-mótinu þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörk Íslands í 2:1-sigri. Það var síðasti leikur liðanna þar til í september þannig að Svíar hafa ekki náð sigri í tveimur síðustu leikjum þjóðanna.

Þá vann Ísland einnig 2:1-sigur gegn Svíþjóð 2. mars 2011 á Algarve-mótinu þar sem þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Katrín Jónsdóttir skoruðu mörk Íslands.

Í þeim leikjum þar sem úrslitin hafa hins vegar skipt mestu máli hafa Svíar iðulega fagnað sigri, nema á Laugardalsvelli í september, þar sem íslenska liðið var óheppið að fara ekki með sigur af hólmi.

Þá skoraði Sara Björk Gunnarsdóttir mark undir lok fyrri hálfleiks sem var ranglega dæmt af.

Svíar eru með nánast sama leikmannahóp og á Laugardalsvelli en það má gera ráð fyrir að framherjinn Stina Blackstenius og hægri bakvörðurinn Hanna Glas komi inn í byrjunarliðið.

Af þeim 25 leikmönnum sem Peter Gerhardsson valdi í leikmannahóp sinn leika sautján í Svíþjóð, tveir á Englandi, tveir í Þýskalandi, tveir á Ítalíu og tveir á Spáni.

Kastað langt og spilað fast

Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson er afar sáttur með undirbúninginn í Svíþjóð og viðurkennir að Svíarnir hafi nálgast leikinn í dag með ákveðnum hroka.

„Umfjöllunin hérna úti fyrir þennan leik hefur snúist mikið um það að íslenska liðið geti lítið annað en að kasta langt. Að íslenska liðið sé fast fyrir og markið sem við skoruðum á Laugardalsvelli hafi verið tóm heppni. Eins að við höfum ekki náð að særa þær af neinu viti.

Það er smá hroki í Svíunum eins og við þekkjum og þannig hefur það stundum verið í gegnum tíðina. Það er bara bensín fyrir okkur og auðvitað blóð á tennurnar líka. Að öðru leyti erum við ekki mikið að velta okkur upp úr þeirra umfjöllun. Við vitum og finnum það að það er sjálfstraust í liðinu og við erum ekki mætt hingað til þess að fylgjast með,“ bætti Jón Þór við.

Einvígi langefstu liðanna

Leikur Svíþjóðar og Íslands sem hefst á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg klukkan 17.30 er sannkallað úrslitaeinvígi tveggja bestu liðanna í F-riðli undankeppni EM kvenna í knattspyrnu. Bæði lið hafa unnið alla sína leiki að undanskildu jafnteflinu þeirra á milli á Laugardalsvellinum, 1:1, fyrir fimm vikum. Svíar eru með 16 stig og eiga eftir útileik gegn Slóvakíu, auk leiksins í dag. Íslendingar eru með 13 stig og eiga eftir útileiki gegn Slóvakíu og Ungverjalandi, en þessir leikir fara allir fram dagana 26. nóvember til 1. desember. Slóvakía er með 7 stig, á þrjá leiki eftir og mætir Lettlandi í dag, og á því enn möguleika á öðru sæti riðilsins.

Sigurlið riðilsins fer beint á EM sem haldið verður á Englandi sumarið 2022. Níu lið fara þannig beint í lokakeppnina. Þrjú lið sem enda í öðru sæti fara auk þess beint á EM þannig að innbyrðis leikir toppliðanna skipta gríðarlega miklu máli. Hin sex liðin sem verða í öðru sæti riðlanna fara síðan í umspil um þrjú síðustu sætin í lokakeppninni.

Alls fara 17 leikir í undankeppninni fram í dag og að þeim loknum verður því komin skýrari staða í öllum níu undanriðlunum og hvað verður í húfi í lokaleikjunum í lok nóvember.