Skál! Dagbjartur Árelíusson með Steðja-bjórinn á leið til kaupenda.
Skál! Dagbjartur Árelíusson með Steðja-bjórinn á leið til kaupenda.
„Við teljum reglurnar okkar megin og viðtökurnar eru góðar. Pantanir berast víða að,“ segir Dagbjartur Árelíusson hjá brugghúsinu Steðja í Borgarfirði.

„Við teljum reglurnar okkar megin og viðtökurnar eru góðar. Pantanir berast víða að,“ segir Dagbjartur Árelíusson hjá brugghúsinu Steðja í Borgarfirði. Fyrirtækið opnaði vefverslun á dögunum þar sem hægt er að kaupa alls átta tegundir af bjór úr framleiðslu Steðja. Varan er svo keyrð heim til viðskiptavina og þar er landið undir. Í gær var Dagbjartur austur á landi að dreifa vörum – og hafði þá áður farið víða í sama skyni um Norðurland.

Skv. lögum hefur ÁTVR, öðru nafni Vínbúðin, einkaleyfi á smásölu áfengis á Íslandi. Þetta telur Dagbjartur ekki standast lengur með vísan til EES-samningsins. Í krafti hans geti Íslendingar til dæmis pantað og keypt áfengi frá útlöndum og fengið sent heim með pósti. Hið sama hljóti því að gilda á innanlandsmarkaði, sbr. jafnræðisreglur.

„Við erum líka ósátt við hvernig ÁTVR sinnir okkur einyrkjunum sem framleiðum bjór. Á þessu hausti erum við með tvær tegundir af jólabjór, Almáttugan og Haleljúa, sem aðeins verða seldar í tveimur verslunum Vínbúðarinnar. Því varð að gera skurk í sölumálum og fara í þessa útrás, sem ég tel löglega og rétta og held ótrauður áfram,“ segir Dagbjartur.

ÁTVR aðhefst ekki

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, líta svo á að farandsala Steðja á bjór væri skýrt lögbrot. Einkaleyfið sem ríkið hefði til smásölu á áfengi væri alveg skýrt. Fyrirtækið myndi þó ekki aðhafast neitt í málinu, slíkt væri hlutverk lögreglu og löggjafans.