Tekur þátt Antonio Guterres, aðalritari SÞ ávarpar fundinn í dag.
Tekur þátt Antonio Guterres, aðalritari SÞ ávarpar fundinn í dag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þing Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir er mjög óvenjulegt og fer eingöngu fram á fjarfundum í fyrsta skipti í sögu Norðurlandaráðs að sögn Silju Daggar Gunnarsdóttur, forseta Norðurlandaráðs.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þing Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir er mjög óvenjulegt og fer eingöngu fram á fjarfundum í fyrsta skipti í sögu Norðurlandaráðs að sögn Silju Daggar Gunnarsdóttur, forseta Norðurlandaráðs. Ástæðan er vitaskuld faraldur kórónuveirunnar en upphaflega stóð til að þingið yrði haldið í Hörpu. Þrátt fyrir að þingið verði mun umfangsminna nú vegna faraldursins má þó reikna með að á þriðja hundrað manns, þingmenn, ráðherrar, alþjóðlegir gestir auk starfsfólks, komi að því með einum eða öðrum hætti.

Tvö stór mál standa upp úr á fundum þingsins; samfélagsöryggi og kórónuveirukreppan, afleiðingar hennar og viðbrögð. Rætt verður hvernig Norðurlöndin ætla að vinna saman í faraldrinum, hvað læra megi af reynslunni og fjallað um mótun stefnu til framtíðar að sögn hennar.

Þurfa að vinna betur saman

Í dag verður haldinn opinn stafrænn umræðufundur leiðtoga Norðurlandanna undir yfirskriftinni „COVID-19 í norrænu og alþjóðlegu ljósi“. Mun Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, taka þátt í fundinum ásamt öllum forsætisráðherrum Norðurlandanna, oddvitum landsstjórnanna og þingmönnum Norðurlandaráðs. Þar á að ræða hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á norrænt samstarf, hvað hægt er að gera til að tryggja öflugra samstarf næst þegar á reynir og hvernig faraldurinn lítur út í alþjóðlegu ljósi.

Í dag fara einnig fram sérfundir forsætisnefndar ráðsins með öllum forsætisráðherrum Norðurlandanna og fundir með utanríkisráðherrum, varnarmálaráðherrum og ráðherrum almannavarna.

,,Það er alveg klárt að við þurfum að vinna miklu betur saman,“ segir Silja Dögg og bætir við að samráð hafi skort meðal norrænu ríkjanna þegar veirufaraldurinn skall á. Mikil áhersla verði lögð á að bæta úr því.

Skýrslan sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, vann fyrir norrænu ráðherranefndina með tillögum um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála verður til umfjöllunar á þinginu og segir Silja Dögg að hún sé góð undirstaða í þeirri vinnu sem fram undan er.

Verðlaunahátíð í beinni

Í kvöld fer fram verðlaunahátíð Norðurlandaráðs 2020 þegar afhent verða verðlaun í fimm flokkum. Ríkissjónvarpið verður með útsendingu frá verðlaunaafhendingunni og hefur undirbúið hana mjög vel að sögn Silju Daggar. Verðlaunaafhendingin verður í beinni útsendingu og sýnd á sama tíma á öllum Norðurlöndunum.