Helga Soffía Konráðsdóttir
Helga Soffía Konráðsdóttir
Eftir Helgu Soffíu Konráðsdóttur: "Það er farsæl lífsafstaða fólgin í því að vera jákvæður og njóta hverrar stundar í einlægri lífsnautn en viðurkenna fallvaltleika."

Ljósið loftin fyllir

og loftin verða blá.

Vorið tánum tyllir

tindana á.

Þetta ljóð Þorsteins Gíslasonar, sem telur sex erindi, söng mamma mín iðulega. Það hefur sennilega leitt til þess að mér þykir þetta eitt fallegasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, svo leikandi létt og gegnsætt, fullt af von og gleði hversdagsins. Það er líka góð lýsing á mömmu sem var glöð og skemmtileg kona og söng mjög fallega. Hún fæddist 1916 og dó 2005.

Þegar hún var tveggja ára fékk hún spánsku veikina og var vart hugað líf. Sagan af því hvernig litla barnið barðist fyrir lífi sínu hefur varðveist sem helgisaga í fjölskyldu okkar. Faðir hennar, Helgi Skúlason, kennari og bóndi á Herríðarhóli í Holtum, hélt á henni í fanginu dægrin út og inn og lét bera í barnið spenvolga mjólk úr kúnum sem eldri systkini hennar skiptust á um að sækja. Litla barnið braggaðist og lifði og þakkaði það síðar meir árvekni og elsku föður síns og hans spenvolgu og næringarríku mjólk. Henni varð ekkert meint af nema að því leyti að hún varð seinni til tals en önnur börn. „En þegar ég loksins lærði að tala þá héldu mér engin bönd,“ sagði hún kankvís síðar.

Það að smitast af spánsku veikinni og lifa sjúkdóminn af hefur sennilega veitt henni aukinn viðnámsþrótt og ónæmi gegn ýmsum sjúkdómum. A.m.k. var hún sérlega heilsuhraust á sinni tíð og varla nokkurn tíma misdægurt. Hún minntist þess að faðir hennar hafði yfir henni blessunarorðin: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig...“ Þetta var sennilega það besta sem hún vissi og kunni og sagði við mig, dóttur sína, rétt fyrir andlátið: „Helga mín, þú mátt aldrei gleyma blessunarorðunum.“

Ég þekkti litla stúlku sem taldi það sínar sælustu stundir þegar hún sat með pabba sínum og hann sagði henni sögur frá þeim tíma þegar hann var lítill. Alltaf voru þetta sömu sögurnar aftur og aftur sem hljómuðu sem hin stórkostlegustu ævintýri í munni hans. Þetta voru endurminningar úr bernsku hans og æsku frá Eyrarbakka, Borgarnesi, Vík í Mýdal. Hún sagði eitthvað sem svo: „Pabbi, segðu mér frá því þegar þú dast á glerbrotið í fjörunni í Borgarnesi og það kom stórt gat á hnéð og það blæddi og þú fórst að gráta. Ha, pabbi, gerðu það.“ Svo kom sagan og frásagnargleði hans var við brugðið, hún var vönduð og fölskvalaus. Þessar stundir þeirra voru sannkallaðar gæðastundir og mátti vart á milli sjá hvort þeirra feðgina naut þeirra betur.

Það kemur fyrir að það lýkst upp fyrir okku r að lífið hangir á bláþræði. Þetta vitum við öll en hvort við höfum það oft í huga er annað mál. Enda er farsæl lífsafstaða fólgin í því að vera jákvæður og njóta hverrar stundar í einlægri lífsnautn er þakkar allt hið góða sem lífið færir okkur í skaut. En kynslóðin sem segir frá hér að ofan var mjög meðvituð um fallvaltleika tilverunnar og sagði því sem svo þegar fólk t.d. kvaddist: „Við sjáumst á morgun – ef Guð lofar.“

Allt líf hangir á bláþræði, lífið er eiginlega barátta upp á líf og dauða frá fyrstu til síðustu mínútu. Þá er gott að vita á hvern við trúum, hvar traust okkar og trúnaður liggur, að vita hver haggast ekki þegar „björgin hrynja og hamravirkin svíkja“. Það er djúpstæður lífsskilningur kristinnar trúar að þeim sem Guð elska samverki allt til góðs. Hversu mótdrægt sem lífið er, hversu langt frá gleði og von sem líf sérhvers manns getur verið kemst hann aldrei svo langt inn í myrk skúmaskot tilverunnar að augu Drottins sjái hann ekki og að hjarta þess sama Drottins finni ekki til með sorg og einsemd mannsins.

„Drottinn blessi þig og varðveiti þig, drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.“

(Fjórða Mósebók 6:24-26.)

Höfundur er sóknarpretur í Háteigskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. helgasoffia@simnet.is

Höf.: Helgu Soffíu Konráðsdóttur