Bann Sænsk stjórnvöld hafa bannað Huawei að koma að uppbyggingu 5G.
Bann Sænsk stjórnvöld hafa bannað Huawei að koma að uppbyggingu 5G.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Bann sænskra stjórnvalda í liðinni viku við notkun tækjabúnaðar frá kínversku fyrirtækjunum Huawei og ZTE í 5G-kerfum landsins hefur vakið mikla athygli, enda gengu Svíar töluvert lengra en flest ríki önnur og sendu Kínverjum tóninn fyrir njósnir og hugverkastuld í leiðinni.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Bann sænskra stjórnvalda í liðinni viku við notkun tækjabúnaðar frá kínversku fyrirtækjunum Huawei og ZTE í 5G-kerfum landsins hefur vakið mikla athygli, enda gengu Svíar töluvert lengra en flest ríki önnur og sendu Kínverjum tóninn fyrir njósnir og hugverkastuld í leiðinni.

„Bannið kom okkur í opna skjöldu,“ segir Kenneth Fredriksen, norskur umdæmisstjóri Huawei á Norðurlöndum og Austur-Evrópu í samtali við Morgunblaðið. „Þessi ákvörðun mun koma harðast niður á Svíum sjálfum og mun bæði tefja innleiðingu 5G-kerfisins þar verulega og gera hana töluvert dýrari.“

Hann segir að viðræður við sænsk stjórnvöld hafi gefið til kynna að þar yrði opin og sanngjörn samkeppni höfð í fyrirrúmi, líkt og góð norræn venja stæði til, án þess að í nokkru væri slakað á öryggiskröfum. „Það var allt á réttri leið, þegar málið varð allt í einu pólitískt.“

Hefur það áhrif á umsvif Huawei utan Svíþjóðar?

„Við höfum starfað í Svíþjóð í 20 ár án þess að nokkuð hafi komið upp hvað öryggi áhrærir. Ekki frekar en annars staðar í heiminum.“

En á Íslandi?

„Líkt og í Svíþjóð hefur Huawei lagt mikið af mörkum til uppbyggingar stafrænna fjarskipta undanfarin 10-20 ár, sem hefur gert landið samkeppnisfærara, enda eru þau lykillinn að hagvexti til framtíðar.

Ég sé ekki betur en að Íslendingar ætli að einbeita sér að því og viðhalda opinni og sanngjarnri samkeppni. Þau lönd sem láta stjórnmálin ráða í tæknimálum munu líða fyrir það til langs tíma litið.“

Heldurðu að Svíar hafi verið að gæta hagsmuna Ericsson?

„Nei, það held ég ekki. Forstjóri Ericsson galt varhug við þessari ákvörðun, ekki aðeins vegna þess hvernig hún var tekin, heldur vegna þess að ef menn hafa ekki aðgang að nýjustu og bestu tækni, þá munu menn tapa samkeppnislegri yfirsýn. Ekki gleyma því að Svíar voru þjóða fyrstir til að tileinka sér 4G og það skilaði sér í gríðarlegum árangri sænskra fyrirtækja á alþjóðavettvangi. En ef þeir ætla núna að útiloka samstarf við kínversk fyrirtæki á þessu nýja sviði, þá eru þeir líka að neita sér um að vera fyrstir á markað. Það á við um alla markaði, stóra og smáa. Þeir sem nota nýjustu tækni við fyrstu hentugleika hafa forskot.“

Áttu von á breytingum ef nýr forseti kemur senn í Hvíta húsið?

„Það er ekki mitt að leggja dóm á pólitíkina, en satt best að segja held ég að það sé heiminum fyrir bestu að aðskilja stjórnmál og tækni.“

Sum Evrópuríki eru á öðru máli...

„Mér finnst það segja mikla sögu hvað viðskiptavinir okkar eru áfram um að halda áfram samstarfinu við Huawei. Þeir vita best hvernig við höfum reynst undanfarinn áratug og að ekkert ríki hefur fundið að tækjabúnaði okkar. Við munum áfram uppfylla ströngustu öryggiskröfur, leyfa prófanir á tækjabúnaði okkar og kóða. En pólitísk afskipti eyða engum öryggisáhyggjum.“

Hvað með þróunina á Íslandi?

„Ísland er raunar mjög gott dæmi. Huawei gerir ekki greinarmun á viðskiptavinum eða mörkuðum eftir stærð. Við höfum átt frábært samstarf við bæði Vodafone og Nova, alveg síðan 3G var nýjasta nýtt, og höfum haldið áfram að koma tækninýjungum í gagnið hratt og örugglega, án nokkurra öryggisvandamála. Íslendingar hafa verið mjög nýjungagjarnir, enda er samkeppni á íslenskum farsímamarkaði ein sú mesta í Evrópu. Við erum nú þegar byrjaðir að setja upp 5G búnað á Íslandi og það mun ekki standa á okkur við að innleiða öruggustu og bestu 5G-tæknina.“

Áhyggjur af fjarskiptaöryggi

• Kínverska fyrirtækið Huawei var stofnað árið 1987 af Ren Zhengfei, næstráðanda í verkfræðisveitum Alþýðuhersins.

• Huawei fór fram úr Ericsson sem helsti símkerfaframleiðandi heims árið 2012.

• Auknar áhyggjur hafa verið af fjarskiptaöryggi Huawei-búnaðar vegna náinna tengsla við kínversk stjórnvöld.

• Hömlur, beinar eða óbeinar, hafa verið settar á notkun Huawei-búnaðar í 5G-kerfum í ýmsum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Frakklandi og Svíþjóð.