Eldi Bleikjutjörnin á Völlum.
Eldi Bleikjutjörnin á Völlum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég gefst ekki upp og held baráttunni áfram.

„Ég gefst ekki upp og held baráttunni áfram. Afstaða stjórnvalda í þessu máli er ranglát og ég skil ekki hvers vegna þarf leyfisveitingar og aðgerðir þótt maður úti í sveit sé sér til gamans og heimilisnota að rækta nokkrar bleikjur í stífluðum bæjarlæk,“ segir Bjarni Óskarsson á Völlum í Svarfaðardal.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest þá ákvörðun Matvælastofnunar að stöðva fiskeldi á Völlum, sem ekki var starfsleyfi fyrir. Bjarni taldi sig hins vegar ekki þurfa leyfi því starfsemi sín væri smá í sniðum. Umsókn um leyfi sendi hann þó inn seint á árinu 2018, en sakir anna var málið ekki tekið til umfjöllunar fyrr en ári síðar. Þá hófst ferlið á að senda út greiðsluseðil fyrir leyfisgjald, sem umsækjandi greiddi ekki, og því fór vinna við umsóknina aldrei af stað.

Ráðuneytið segir í úrskurði sínum ekki standast að við málsmeðferð hefði Matvælastofnun brotið rannsóknar-, meðalhófs- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga eins og kærandi hélt fram. Kjarni málsins væri sá að MAST hefði þá skyldu samkvæmt lögum að stöðva fiskeldi sem ekki hefði verið gefið út leyfi fyrir. Engu skipti þótt fiskeldið væri aðeins ætlað til heimilisnotkunar og tómstundaánægju. Einnig vísar ráðuneytið til sjónarmiða MAST sem taldi fjarri að of hart hefði verið gengið fram í þessu máli.

„Lög um fiskeldi eru gölluð og þeim þarf að breyta. Ég fékk úrskurðinn í hendur fyrr í dag [gær] og ráðfæri mig við lögfræðinga áður en næstu skref verða tekin,“ segir Bjarni Óskarsson. sbs@mbl.is