Við í Flokki fólksins höfum þungar áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins fyrir heimilin og fólkið í landinu.

Við í Flokki fólksins höfum þungar áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins fyrir heimilin og fólkið í landinu. Við viljum að Alþingi geri tafarlausar ráðstafanir með lagasetningu til að vinna gegn því tjóni sem vafalaust hlýst af því þegar verðbólgan vex með tilheyrandi hækkun á verðtryggð lán heimilanna. Það er ástand sem við þekkjum því miður allt of vel.

Við skulum átta okkur á því að allar forsendur á verðbólguskoti eru nú þegar fyrir hendi. Lántakar mega búast við því að höfuðstóll lána þeirra hækki umtalsvert með litlum fyrirvara eins og í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þá ruku skuldir heimilanna skyndilega upp vegna verðbólguskots. Þúsundir misstu heimili sín.

Kórónuveirufaraldurinn dregst á langinn. Við horfum fram á mesta efnahagssamdrátt í heila öld, hrun gjaldeyristekna og atvinnuleysi aldrei meira.Við verðum að undirbúa okkur betur fyrir það sem fram undan er.

Nú eru vextir lágir og það er boðið upp á endurfjármögnun hjá lánafyrirtækjum með töku óverðtryggðra lána. Þó munu fjölmargir ekki geta breytt skuldum sínum með endurfjármögnun vegna atvinnumissis eða annarra ástæðna. Þeir sem skulda verðtryggð lán eru berskjaldaðir. Við megum ekki skilja þetta fólk eftir varnarlaust. Nauðsynlegt er að vernda heimilin fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots. Skelfingar hrunsins 2008 mega aldrei endurtaka sig.

Verðtryggð húsnæðislán taka mið af mánaðarlegum breytingum á vísitölu neysluverðs. Við í Flokki fólksins höfum nú lagt fram frumvarp á Alþingi (mál. nr. 38) um að þak verði sett á neysluvísitöluna sem komi í veg fyrir áhrif verðbólguskots á höfuðstól verðtryggðra lána á næstu 12 mánuðum. Þannig væri strax hægt að tryggja heimili landsins fyrir óvæntu verðbólguskoti á erfiðum tímum.

Jafnframt leggjum við til að verðtrygging húsnæðislána verði alfarið afnumin. Enda hefur hún valdið óbætanlegu tjóni í þjóðfélagi sem býr við sveiflukenndan gjaldmiðil sem krónan okkar er. Það er því nauðsynlegt að leggja bann við töku verðtryggðra húsnæðislána svo heimilum landsins verði ekki kastað á verðbólgubál í hvert sinn sem kreppir að í þjóðarbúskapnum.

Þar sem ekki er hægt að afnema verðtryggingu af gildandi lánum er nauðsynlegt að þeir sem það kjósa fái heimild til að endurfjármagna sig inn í nýtt kerfi. Einnig er brýnt að niðurstöður lánshæfis- og greiðslumats standi ekki í vegi fyrir því að skuldari geti breytt verðtryggðu húsnæðisláni sínu í óverðtryggt lán. Til að liðka fyrir endurfjármögnun leggjum við í Flokki fólksins til að ekki þurfi að fara fram lánshæfis- og greiðslumat þegar neytandi skiptir út eldra verðtryggðu fasteignaláni fyrir óverðtryggt lán.

Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að heimilum landsmanna verði ekki kastað á verðbólgubálið eins og í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.