Blámi Kristín Sesselja syngur um sambandsslit og fleira á Breakup Blues.
Blámi Kristín Sesselja syngur um sambandsslit og fleira á Breakup Blues.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Tónlistarkonan Kristín Sesselja sendi nýverið frá sér aðra hljómplötu sína sem nefnist Breakup Blues .

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tónlistarkonan Kristín Sesselja sendi nýverið frá sér aðra hljómplötu sína sem nefnist Breakup Blues . Kristín samdi lög og texta plötunnar og sá Baldvin Hlynsson um útsetningar á öllum lögum nema „Breakup Blues“ og „What would I do without you?“ sem hann útsetti með Kristínu. Plötuna unnu þau milli landa þar sem Kristín bjó í Noregi en Baldvin í Svíþjóð og skrifuðu þau svo undir dreifingarsamning við stórfyrirtækið AWAL sem sér um að dreifa tónlist fyrir listamenn og hljómsveitir á borð við Die Antwood, Thom Yorke og Finneas. Kristín og Baldvin kynntust á listahátíðinni LungA í lagasmíðasmiðju og í lok námskeiðsins áttu allir að útsetja lag og bað Baldvin Kristínu að syngja lagið sem hann samdi. Hófst þar með farsælt samstarf og segir Kristín að tekið hafi um hálft ár að gera plötuna.

Samband frá byrjun til enda

Kristín er tvítug og að mestu sjálflærð í gítarleik. Söngþjálfun hlaut hún fyrst í kór Menntaskólans við Hamrahlíð og tók síðar nokkra söngtíma. Hún flutti nýlega aftur til Íslands frá Noregi þar sem nún stundaði nám í alþjóðlegum heimavistarskóla sem hún segir hafa haft mikil áhrif á sig.

Baldvin er upptökustjóri, lagahöfundur og djasspíanóleikari og hefur gefið út djassplötur. Hann var valinn bjartasta vonin árið 2018 í djass- og blúsflokki á Íslensku tónlistarverðlaununum og hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Auði, Sturlu Atlas og Unnstein Manúel. Hann stundar nám við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi auk þess að sinna upptökustjórn.

Kristín hefur samið lög í um átta ár, gaf út EP-plötuna Freckles árið 2017 en á nýju plötunni syngur hún um persónuleg málefni, eins og titill plötunnar, Breakup Blues , og laga hennar bera með sér en af lagatitlum má nefna „What Would I Do Without You“ og „Please Don't Kiss Me With Your Eyes Open“. Blaðamaður spyr hvort platan fjalli í heild um sambandsslit? „Já, platan er eiginlega bara saga, ein stór dagbókarfærsla um samband frá byrjun til enda, samband sem fer voða illa en fer úr reiði og sorg yfir í að vilja finna hamingjuna á ný, finna hana svo og kunna að meta vini sína. Að fókusa á hið góða,“ svarar Kristín.

Andstæður mætast

Tilfinningarnar sem Kristín syngur um í lögunum eru þungar en oft eru textarnir fyndnir líka, að hennar sögn. „Sérstaklega „Fuckboys“, það er sterkur texti en mér finnst það bara fyndið og „Type“ líka þar sem ég er að fjalla um afbrýðisemi og sorg, að sjá fyrrverandi með nýrri manneskju en ég hlæ að því,“ útskýrir hún.

Í „Type“ er sungið til fyrrverandi kærasta sem er kominn með nýja kærustu upp á arminn sem virðist þó vera svipuð týpa og hans fyrrverandi. „Þetta lag samdi ég í náttúrufræðitíma þegar ég átti að vera að læra,“ segir Kristín glettin.

– Svona textar magnast upp þegar tónlistin er létt, andstæður mætast þannig að úr verður eitthvað áhrifameira en ella, ekki satt?

„Já, algjörlega og við Baldvin tölum mikið um það þegar við erum að vinna að tónlist, að okkur finnist gaman að vinna með andstæður. Sorglegur texti við létta melódíu og útsetningu. Eins og þú segir hjálpar það mikið við að ýta laginu lengra. Maður getur bara hlustað ákveðið lengi á texta um að eitthvað sé ömurlegt og manneskjan svo leið en ef maður getur dansað við það er það miklu skemmtilegra.“

Swift alltaf efst á lista

– Áttu þér einhverjar fyrirmyndir úr röðum tónlistarkvenna?

„Já, ég hlusta einmitt mjög mikið á tónlistarkonur af því ég vil styrkja þær og líka af því að ég tengi við textana, hlusta mest eftir þeim. Taylor Swift er alltaf efst á lista og alveg frá því ég var 11 ára hef ég verið Taylor Swift-aðdáandi númer eitt í heiminum. Ég dýrka hana og dái og fæ mikinn innblástur frá henni. Nýlega er ég svo farin að hlusta á Lily Allen, finnst hún geggjuð og lagið „Breakup Blues“ er mikið inspírerað af Robyn hinni sænsku,“ svarar Kristín.

Breakup Blues er aðgengileg á streymisveitum og segir Kristín að hana langi gjarnan að gefa líka út á vínyl. Þeir sem vilja hlusta á plötuna geta t.d. gert það á Spotify og má einnig finna tónlistarmyndbönd við lög Kristínar á YouTube þar sem hún er með rás sem gerast má áskrifandi að.