Skotinn snjalli, Steven Lennon, skoraði flest mörk í Pepsi Max-deild karla á keppnistímabilinu og er því markakóngur Íslandsmótsins. Lennon skoraði 17 mörk fyrir FH.
Skotinn snjalli, Steven Lennon, skoraði flest mörk í Pepsi Max-deild karla á keppnistímabilinu og er því markakóngur Íslandsmótsins. Lennon skoraði 17 mörk fyrir FH.

Á samfélagsmiðlum varð ég var við að einhverjir vilja gefa sér að þar með hefði hann slegið hið lífseiga markamet sem Pétur Pétursson setti árið 1978 þegar hann skoraði 19 mörk fyrir ÍA. Pétur skoraði 19 mörk í aðeins 17 leikjum en Lennon lék 18 leiki í deildinni þetta tímabilið eða í jafn mörgum leikjum og menn léku á Íslandsmótinu þegar tíu lið voru í deildinni.

Ég held að menn ættu ekki að gefa sér neitt í því sambandi þótt FH hafi átt fjóra leiki eftir. Af einhverjum ástæðum hafa 19 mörk í efstu deild karla á Íslandi reynst veggur sem ekki hefur tekist að fara fyrir. Framarinn Guðmundur Torfason jafnaði metið árið 1986, Skagamaðurinn Þórður Guðjónsson árið 1993, Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson árið 1997 og Bolvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason árið 2017 en hann var þá hjá Grindavík.

FH átti eftir að spila gegn KA, Gróttu og Val úti og KR heima hefði tímabilið náð 22 umferðum. Lennon hefði sjálfsagt bætt við marki eða mörkum miðað við frammistöðuna á tímabilinu þótt erfitt sé að segja til um hvernig mönnum hefði vegnað eftir langt hlé. En hingað til hafa menn rekið sig á vegginn. Guðmundur og Þórður höfðu báðir leik í lokaumferðinni til að bæta metið og Andri skaut í stöng úr víti í lokaumferðinni 2017. Jafnaði svo raunar metið síðar í leiknum.

Ætli Steven Lennon hefði ekki jafnað metið eins og hinir og skorað 19 mörk ef hann hefði spilað 22 leiki.