Nýbygging Af 2.448 fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi voru 795 eða 32% að kaupa sína fyrstu íbúð, skv. Þjóðskrá.
Nýbygging Af 2.448 fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi voru 795 eða 32% að kaupa sína fyrstu íbúð, skv. Þjóðskrá. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ungt fólk hefur lengi staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum við að koma sér þaki yfir höfuðið, ekki síst við að brúa bilið á milli íbúðalána og kaupverðs. Um nýliðin mánaðamót tóku gildi lögin um hlutdeildarlán sem eiga að auðvelda tekju- og eignaminni einstaklingum að fjármagna sín fyrstu fasteignakaup. Opnað var fyrir umsóknir einstaklinga í gær og jafnframt var opnað fyrir skráningu byggingaraðila í samstarf við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um uppbyggingu íbúða inn í kerfið. Reynslan á svo eftir að leiða í ljós hversu vel þetta úrræði mun leysa úr húsnæðisvanda ungs fólks.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ungt fólk hefur lengi staðið frammi fyrir miklum erfiðleikum við að koma sér þaki yfir höfuðið, ekki síst við að brúa bilið á milli íbúðalána og kaupverðs. Um nýliðin mánaðamót tóku gildi lögin um hlutdeildarlán sem eiga að auðvelda tekju- og eignaminni einstaklingum að fjármagna sín fyrstu fasteignakaup. Opnað var fyrir umsóknir einstaklinga í gær og jafnframt var opnað fyrir skráningu byggingaraðila í samstarf við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um uppbyggingu íbúða inn í kerfið. Reynslan á svo eftir að leiða í ljós hversu vel þetta úrræði mun leysa úr húsnæðisvanda ungs fólks.

Þurfa á stuðningi að halda

Fram kom þegar frumvarpið um hlutdeildarlán var lagt fram að þótt fyrstu kaupendum á fasteignamarkaði hefði fjölgað þyrfti sífellt hærra hlutfall þeirra á stuðningi foreldra eða annarra að halda til að geta keypt fasteign. HMS vísaði í kannanir sem leiddu í ljós að hlutfall þeirra sem fengu aðstoð við að fjármagna fyrstu íbúðakaup sín frá ættingjum eða vinum allt frá árinu 2010 er 59%. Til samanburðar var hlutfall þeirra sem fengu aðstoð aðeins 35% á níunda áratugnum og 44% frá aldamótum til ársins 2009.

Fyrstu kaupendum í fasteignaviðskiptum fer þó fjölgandi jafnt og þétt. Þjóðskrá hefur nú birt tölur sem leiða í ljós að hlutfall þeirra sem eru að kaupa sér sína fyrstu fasteigna af heildarfjölda viðskipta á fasteignamarkaði hefur ekki verið hærra um árabil. Það fór yfir 30% í fyrsta sinn á landinu öllu á þessu ári. Á höfuðborgarsvæðinu fór hlutfallið upp í 32% (795 kaupsamningar) af öllum fasteignaviðskiptum á þriðja fjórðungi þessa árs og hefur ekki verið hærra allt frá árinu 2008, sem er það tímabil sem gögn ná yfir. Til samanburðar var hlutfall fyrstu kaupenda íbúðarhúsnæðis 8-10% á árinu 2010 og 20-22% á árinu 2015. Þessi þróun hefur verið í sömu átt í öðrum landshlutum. Hlutfall fyrstu kaupenda var hvergi hærra en á Vesturlandi þar sem það var 39% og 38% á Austurlandi.

Fjallað var um ástæður þess að hlutur fyrstu kaupenda á húsnæðismarkaði hefur margfaldast á einum áratug í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í ágúst sl. og var þar bent á að í kjölfar efnahagshrunsins mætti gera ráð fyrir að yngra fólk hefði ekki haft tök á að festa kaup á íbúð og hlutfallið því verið lágt þess vegna. Þegar hagkerfið komst aftur á skrið mætti sjá að hlutfallið tók aftur að hækka. Fasteignaverð hækki yfirleitt nokkuð vel í takt við hagsveifluna sem geri að verkum að veðrými heimilanna aukist, sem aftur geri mörgum foreldrum kleift að lána afkvæmum sínum fyrir útborgun fyrstu kaupa. Fleira kemur vitaskuld til, bæði vaxtalækkanir að undanförnu og heimildir til að nota séreignarsparnað í íbúðakaup hafa stuðlað að fasteignakaupum.

Stærsti hópurinn eignast sitt fyrsta húsnæði fyrir þrítugt

Sjá má af tölum Hagstofu Íslands að stærsti aldurshópur þeirra sem eru að ráðst í sín fyrstu fasteignakaup eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði fyrir þrítugt. Hlutfall þeirra sem eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði af meðalmannfjöldanum hér á landi nær hámarki í kringum 26 til 28 ára aldur en hlutfallið fer síðan lækkandi með hærri aldri.