Kjörsókn Langar biðraðir hafa myndast fyrir framan kjörstaði í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem bjóða fólki upp á að greiða atkvæði utan kjörfundar.
Kjörsókn Langar biðraðir hafa myndast fyrir framan kjörstaði í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem bjóða fólki upp á að greiða atkvæði utan kjörfundar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rúmlega 93 milljónir manna hafa þegar greitt atkvæði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, sem fara fram í dag.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rúmlega 93 milljónir manna hafa þegar greitt atkvæði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, sem fara fram í dag. Það eru um tveir þriðju af öllum þeim sem greiddu atkvæði í kosningunum fyrir fjórum árum, og stefnir því allt í að kjörsókn að þessu sinni verði ein sú mesta frá forsetakosningunum árið 1900, en þá greiddu 73,2% þeirra sem höfðu kosningarétt atkvæði.

Þessi mikli fjöldi atkvæða sem greidd voru fyrir kjördag þýðir að minni líkur eru á því að hrein niðurstaða muni fást í talningunni í nótt, því að í mörgum ríkjum eru slík atkvæði talin síðust, og í Pennsylvaníu-ríki, þar sem baráttan er hvað hörðust, mega kjörstjórnir ekki einu sinni opna atkvæði sem berast með pósti fyrr en kjörstaðir loka í ríkinu.

Skoðanakannanir benda enn sem fyrr til þess að Joe Biden, frambjóðandi demókrata, njóti mun meira fylgis á landsvísu en Donald Trump Bandaríkjaforseti, en það þýðir þó ekki að forsetinn eigi enga möguleika á endurkjöri, þar sem kjörmannakerfið, sem gefur hverju ríki fyrir sig vissan fjölda kjörmanna sem svo velja sér forseta, þýðir að enn gæti Trump náð að tryggja sér að minnsta kosti 270 kjörmenn, eða meirihluta þeirra 538 sem eru í boði.

Má varla misstíga sig

Demókratar búa hins vegar að því að nokkur fjölmennari ríki eru svo gott sem talin örugg fyrir þá, sem aftur þýðir að leið Trumps að Hvíta húsinu verður þyrnum stráð. Hann má helst ekki misstíga sig í neinu af lykilríkjunum Ohio, Flórída, Pennsylvaníu, Arizona, Norður-Karólínu og Georgíu til þess að eiga möguleika á sigri. Kannanir nú benda til þess að Biden leiði í öllum þessum ríkjum nema Ohio, þó að munurinn sé vissulega ekki alls staðar mikill.

Bandaríkin eru víðfeðmt land sem ná yfir sex tímabelti, og því loka kjörstaðir ekki allir á sama tíma. Fyrstu ríkin munu loka kjörstöðum sínum á miðnætti að íslenskum tíma, þar á meðal Georgía, og þrjú ríki til viðbótar, Norður-Karólína, Ohio og Vestur-Virginía, gera það hálftíma síðar. Þar sem mjótt er á mununum í tveimur fyrrnefndu ríkjunum, gæti niðurstaðan í þeim gefið ágæta vísbendingu um í hvaða átt stefnir, liggi hún á annað borð fyrir.

Klukkan eitt að íslenskum tíma verður hins vegar kjörstöðum lokað í bæði Pennsylvaníu og Flórída, og klukkutíma síðar í Arizona og Texas, þar sem kjörsókn hefur farið fram úr öllum helstu væntingum manna. Klukkan fjögur loka svo kjörstaðir á vesturströnd Bandaríkjanna, en ríkin þar eru öll talin örugg fyrir demókrata og Joe Biden.

Venjulega myndi þá liggja fyrir með nokkurri vissu hver hefði unnið kosningarnar, en mismunandi reglur eru í hverju ríki um talningu póstatkvæða, hversu lengi eftir kjördag þau mega berast, og hvaða skilyrði þau þurfa að uppfylla til þess að vera talin gild.

Þannig mega póstatkvæði í Kaliforníu berast allt að 17 dögum eftir að kjördegi lýkur, og vera talin gild, svo lengi sem þau voru póstlögð fyrir kjördag. Það er ýtrasta dæmið, en flest hin ríkin taka við greiddum atkvæðum sem berast allt að þremur, sjö eða tíu dögum eftir að kjörstöðum lokar.

„Rauð hylling“ eða „blá bylgja“?

Fjöldi slíkra atkvæða hefur sjaldan verið nægur til þess að breyta þeim tölum sem liggja fyrir að morgni miðvikudagsins, en að þessu sinni gæti annað verið upp á teningnum. Í þingkosningunum fyrir tveimur árum töldu repúblikanar sig til að mynda hafa unnið í nokkrum kjördæmum, en þegar utankjörfundaratkvæðin töldust með breyttist staðan með afgerandi hætti.

Þannig munaði mjóu að Ted Cruz frá Texas héldi sæti sínu í öldungadeildinni, og Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, mátti sömuleiðis bíða í von og óvon eftir að sjá hvort forysta hans á kjördag myndi þurrkast út.

Sú staða gæti hæglega komið aftur upp í nótt, þannig að svo virtist sem Trump hefði forystu um nóttina, en Biden ynni á eftir því sem fleiri löglega greidd atkvæði yrðu talin.

Lagakrókar ráði úrslitum?

Það vakti því athygli um helgina þegar Axios-fréttastofan greindi frá því eftir heimildum sem sagðar voru úr innsta hring forsetans, að Trump hefði sagt við nána samstarfsmenn sína að hann hygðist lýsa yfir sigri á kosninganótt, nánast óháð því hver staðan væri.

Trump bar fréttirnar til baka samdægurs, en lét þess um leið getið hvað það væri hræðilegt að hægt væri að telja atkvæði lengi, og hét því að lögfræðingar sínir myndu halda innreið sína í helstu lykilríki til þess að fara yfir talningu atkvæðanna.

Sú yfirlýsing þarf ekki að koma á óvart, en Trump hefur frá því í sumar reynt að varpa efasemdum á póstatkvæði og sagt þau bjóða upp á víðtæk kosningasvik, þrátt fyrir að helstu rannsóknir bendi til annars. Lögfræðingateymi beggja flokka hafa því tekist á um hvaða reglur eigi að gilda í hvaða ríkjum um móttöku og talningu þeirra. Verði mjótt á munum eftir nóttina, gæti allt eins verið, að úrslitin myndu ráðast í réttarsalnum.

Demókratar í sterkri stöðu

Einnig er kosið til beggja deilda Bandaríkjaþings í dag. Kosið er um öll sætin í fulltrúadeildinni til næstu tveggja ára. Þar hafa demókratar nú þegar 232 þingsæti af 435, en repúblikanar hafa 197 sæti. Reynist skoðanakannanir réttar gætu demókratar bætt allt að 15 fulltrúum við sig.

Þá eiga repúblikanar í vök að verjast í öldungadeildinni, en þar er kosið um þriðjung þingsæta til sex ára í senn. Að þessu sinni þurfa þeir að verja 23 þingsæti gegn 12 hjá demókrötum. Nái demókratar að vinna fjögur þeirra umfram þau sem þeir tapa fá þeir einnig meirihluta í öldungadeildinni, en þeir eru sagðir í góðri stöðu í Maine, Norður-Karólínu og Arizona.