Hjalti Geir Kristjánsson fæddist 21. ágúst 1926. Hann lést 13. október 2020. Útför Hjalta Geirs fór fram 27. október 2020.

Ekki man ég hvenær ég sá Hjalta Geir fyrst. Mér finnst hann alltaf hafa verið þarna eins og fjöllin og sólskinið.

Kannski var það þegar hann sprangaði um götur borgarinnar með sitt íðilfagra konuefni sem seinna varð frú Sigríður. Ég held ég hafi fyrst tekið eftir henni. Strax var augljóst að lífshamingjan var með í för.

Foreldrar Guðrúnar konu minnar leigðu hjá föður Hjalta Geirs, Kristjáni Siggeirssyni, á Hverfisgötu 28. Faðir hennar, Jón J. Brynjólfsson, lést skyndilega 1947. Þá var Guðrún aðeins fjögurra ára og tveir ungir bræður. Leigusalar Ástu móður hennar, Kristján og Ragnhildur, ferðuðust oft til útlanda og færðu börnunum alltaf gjafir þegar þau komu til baka úr þeim ferðum. Þetta hefur aldrei gleymst í yfir 70 ár. Þessi nærgætni hefur gengið í arf í fjölskyldunni. Samúð var einkenni Hjalta Geirs.

Hjalti Geir var góður fulltrúi gamla kapítalsins, afkomandi Eldeyjar-Hjalta, sem hann heitir eftir og var afi hans. Þótt Hjalti Geir hefði margt fram yfir meðbræður sína, efni, menntun og hæfileika, var hann ávallt sanngjarn. Hann setti alla við hlið sér, jafnt háa sem lága.

Samskipti okkar jukust mikið þegar við sátum samtímis í stjórn Verslunarráðs Íslands. Þar var hann mjög áhrifamikill, traustur og ábyggilegur. Ég sá hann aldrei skipta skapi né hækka róminn. Hann breytti bara í alvarlegan svip þegar hann vildi leggja áherslu á mál sitt. Það dugði.

Á níræðisafmæli sínu hét Hjalti Geir og fjölskyldan stórkostlega veislu í Laufási þar sem hún á sumarbústað. Þar mætti mikill fjöldi fólks við mikinn fögnuð. Eins og mál æxluðust má segja að Hjalti Geir hafi við þetta tækifæri kvatt samtíðarmenn sína með stæl.

Við Guðrún vottum frú Sigríði og fjölskyldunni samúð okkar og þökkum góða vináttu og hlýhug alla tíð.

Guðrún og

Jóhann J. Ólafsson.