Steingrímur Sigurjónsson, húsasmíðameistari og byggingafræðingur, fæddist á Kleppsveginum í Reykjavík í húsi sem hét Reykhólar 20. ágúst 1944.

Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 27. september 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Sveinsson, arkitekt og byggingarfulltrúinn í Reykjavík, f. 3. júlí 1918, d. 1. nóvember 1972 og Ólöf Steingrímsdóttir, húsmóðir og gjaldkeri, f. 9. mars 1919, d. 23. desember 2016.

Bræður hans eru Sveinn Geir, f. 11. mars 1949 og Kristinn, f. 8. október 1954.

Barn Steingríms með Aðalbjörgu Rósu Pálsdóttur, f. 6. nóvember 1944, er Páll, f. 26. nóvember 1965, eiginkona Þórunn Halldórsdóttir, f. 9. apríl 1972, dætur þeirra eru Aðalbjörg og Sólbjört. Sonur Páls með Hlédísi Gunnarsdóttur, f. 22. ágúst 1967, d. 23. júní 2009 er Elvar.

Steingrímur kvæntist 5. júlí 1975 Valgerði Sigmarsdóttur, f. 12. september 1947, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru:

1) Ólafur, f. 20. nóvember 1979, sambýliskona Aldís Sigríður Sigurðardóttir, f. 5. desember 1983, sonur þeirra er Brimir.

2) Guðríður, f. 13. júlí 1984, eiginmaður Daði Janusson, f. 20. nóvember 1984, dætur þeirra eru Sigrún Vala, Karen Jana og Kristín Lára.

3) Kristín, f. 13. júlí 1984, sambýlismaður Martin Öberg, dætur þeirra eru Emma Júlía og Hanna Lilja.

Steingrímur ólst upp í Reykjavík, gekk í Laugarnesskólann að því frátöldu að foreldrar hans bjuggu í Noregi frá 1955 til 1957, hann lauk sveinsprófi í húsasmíði 23. október 1966 og meistaraprófi 2. janúar 1970 og prófi í byggingafræði frá Danmörku nokkrum árum síðar enda dvaldi hann í Danmörku og Svíþjóð í allnokkur ár við nám og vinnu, upphaflega einn á ferð en síðar með fjölskyldu sinni.

Steingrímur vann að mestu við smíðar alla tíð, að frátöldum ýmsum verkum svo sem við múrverk, húsvörður, rútubílstjóri, leiðsögumaður og ýmislegt sem til féll í lífshlaupinu.

Fyrir allnokkrum árum hannaði hann tröppur smíðaðar úr tréafgöngum á vinnustöðum, fékk þær viðurkenndar af Vinnueftirlitinu og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og hafði hann af smíði þeirra talsverða vinnu allt til æviloka. Var hann af því kallaður Steini tröppusmiður. Hann var áhugamaður um handbolta, æfði og keppti með ÍR í mörg ár, þegar því skeiði lauk var hann dómari í yngri flokkum handbolta.

Ungur gekk hann til liðs við Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík.Steingrímur verður jarðsunginn frá Grensáskirkju í dag, 3. nóvember 2020, klukkan 15.

Vegna aðstæðna verða bara þeir nánustu viðstaddir.

Streymt verður frá útför:

http://www.sonik.is/steingrimur

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https.//www.mbl.is/andlat

Vart er hægt að segja að fráfall Steinda, eins og hann var jafnan nefndur af okkur félögunum, hafi komið á óvart. Krankleiki hafði hrjáð hann lengi og síðustu 2-3 árin verið brött. Þessi stóri sterki maður hafði lengi vitað að mein sækti að honum. En hann var veifiskati enginn og tók hlutskipti sínu af hreysti og skilningi á gangi lífs og dauða. „Viltu lofa mér því að gera ekkert með það ef ég fæ áfall, Valli minn,“ spurði kempan eitt sinn. Nei, ekki gat ég heitið því. Þá glotti karl og lagði til að hafa hægferð á hjálparkallinu. Steindi batt ekki sína hnúta á sama hátt og samferðafólk hans. Hann var stórhuga hugsjónamaður með hagsmuni heildar í huga en smá hagnaðarvon í bland. Vegabætur, flugöryggi og flóttaleiðir í byggingum svo fátt eitt sé talið. En hann átti við sína erfiðleika og harm að stríða en bar bagga sína af karlmennsku. Oft ræddum við saman í góðu tómi, t.d. í fjölmörgum ferðum til Kaupmannahafnar sem var hans heilaga borg. Þar fór margt á milli sem að góðum sið geymist. Þó get ég sagt þetta: Honum lá aldrei illt til nokkurs manns, hann bar djúpa virðingu fyrir föður sínum löngu látnum sem og móður sinni sem einnig er látin nú. Stoltur var hann af börnunum sínum sem öll komust til manns og mennta. Og hafði bræður sína í hávegum. Vöknaði karli stundum í krók þegar talið barst að fjölskyldunni. Þar fannst honum ýmislegt hafa mátt betur fara en stundum sendir lífið fólki úrlausnarefni sem ekki ræðst við. Steingrímur var bóngóður með afbrigðum og vildi allt fyrir alla gera. Því var miður að fyrir kom að menn misnotuðu sér það. Ljótur leikur var þegar aðilar úr atvinnugrein hans báðu hann að skipuleggja fyrir sig ferð til Kaupmannahafnar sem þeir ætluðu aldrei í. Þá sárnaði honum. Borgina þá þekkti hann út og inn, hafði dvalið þar langdvölum í námi og starfi. Bjó Steindi meðal annars hjá Klöru Pontoppidan leikkonu, einni af þjóðargersemum Dana. Urðu þau góðir vinir og kenndi hún honum almennilega yfirstéttardönsku. Eldra fólk í þessari gömlu höfuðborg okkar heyrði strax á framburðinum að kappinn hafði haft kennara sem um munaði. Árum saman naut Lyftingasamband Íslands aðstoðar Steinda í keppnisferðum þangað. Enn heyrist óma í íþróttahúsinu á Gunnar Nu Hansens Plads á Austurbergi hvatningarorð hans svo til var tekið. Sem fyrrverandi formaður LSÍ leyfi ég mér að þakka fyrir það hér. Það var gaman að ganga um borgina við Eyrarsund með leiðsögn meistarans. Mikil skemmtun var að eiga með honum stundir og heyra hans nálgun á hlutunum. Það er dýrmætt núna. Við áttum síðast samtal í síma rúmri viku fyrir andlátið. Var mjög af honum dregið þá og sennilega vissi hann að óðum styttist í. Það verður söknuður að Steingrími Sigurjónssyni. Minnti hann mjög á kappa fornaldar, hár og herðabreiður, rómsterkur og afrendur að afli. Dettur mér nú í hug hvernig Hriflu-Jónas kvaddi annan sérlundaðan kappa með þessum orðum og geri þau að mínum: „Vertu sæll, Grettir.“ Þeim sem vilja þiggja sendi ég samúðarkveðjur.

Valbjörn Jónsson.

Fallinn er frá mikill sómadrengur, Steingrímur Sigurjónsson. Hann gekk í raðir okkar flugbjörgunarsveitarmanna fyrir um það bil 50 árum og helgaði sig björgunarstörfum alla tíð síðan. Steini var stór og stæðilegur og það sem hann hafði fram yfir ýmsa aðra var að hann hafði einnig stórt hjarta. Fyrir mörgum árum slasaðist sonur þess er þetta skrifar og var Steini fyrsti maður til að banka upp á hjá mér, bara til að faðma og sýna stuðning. Þetta gleymist aldrei. Hann var tryggur vinur. Sólarhring áður en hann hvarf úr þessu jarðlífi var hann eins og alltaf hrókur alls fagnaðar með okkur eldri félögum FBSR í kaffi. Ekki datt okkur í hug að þetta væru síðustu samverustundir okkar. Hann hafði fengið áfall nokkrum dögum áður, en að sjálfsögðu var hann mættur í kaffi eins og ekkert væri. Fyrir rúmum 20 árum fóru eldri meðlimir flugbjörgunarsveitarinnar að hittast á laugardagsmorgnum í kaffi og fljótlega bættist Steini í þann hóp og hefur mætt þar alla tíð síðan. Þessi hópur gengur undir nafninu „Lávarðar“ og var hann stoltur af því að vera innan þessa hóps, hann fékk þann titil að vera hirðbílstjóri hópsins. Hann útvegaði rútur í ferðir sem við höfum farið í og var að sjálfsögðu bílstjóri. Það fór ekkert fram hjá mönnum þegar Steini mætti, hann bar höfuð og herðar yfir menn og það heyrðist líka í honum, þá var og stutt í hláturinn. Hagur flugbjörgunarsveitarinnar var ætíð í fyrsta sæti hjá honum, sama á hverju gekk. Oft höfum við talið að endalok Steina væru komin, hann hefur gengið í gegn um ýmis áföll í gegn um tíðina, en alltaf risið upp aftur. Að lokum hafði maðurinn með ljáinn betur. Steina verður sárt saknað, það er komin hola í hópinn og menn syrgja góðan og heiðarlegan dreng sem aldrei talaði illa um nokkurn mann. Lávarðar senda innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda.

Farðu í friði kæri vinur.

F.h. Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og Lávarðaflokks,

Grétar F. Felixson.