[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Camillu Läckberg. Sigurður Þór Salvarsson þýddi. Sögur útgáfa, 2020. Kilja, 315 bls.

Faye athafnakona, sem veit ekki aura sinna tal, heldur uppteknum hætti í spennusögunni Silfurvængjum , sem er sjálfstætt framhald af Gullbúrinu eftir Camillu Läckberg, gefur reyndar í og lætur engan eiga inni hjá sér, allra síst karlrembudrullusokka.

Þegar utanaðkomandi áhrif eins og til dæmis kórónuveira, sem enginn virðist ráða við og ætlar allt eins og gleði og bjartsýni að drepa, er hressandi að lesa hetjusögu eins og Silfurvængi . Það er líka ágætis tilbreyting að hafa ofurkonu í aðalhlutverkinu og konur henni til aðstoðar. Faye lætur ekkert stöðva sig, allra síst skítseiði sem reyna að bregða fyrir hana fæti. Hún er alltaf með ás uppi í erminni, búin að hugsa nokkra leiki fram í tímann og beitir króki á móti bragði.

Faye fórnaði öllu fyrir Jack, eins og lesa má um í Gullbúrinu , en kom tvíefld til baka og svipti hann því sem skipti hann mestu máli. Tveimur árum síðar hefur hún komið sér fyrir á Ítalíu, en rekur gullnámuna, fyrirtækið Revenge eða Hefnd, í Stokkhólmi og hyggur á útrás í Bandaríkjunum. Minna má það ekki vera fyrir konu sem klæðist fötum frá helstu tískuhúsunum, skartar dýrustu skartgripum og lítur ekki við húsgögnum sem almúginn verður að láta sér nægja. Toppkona, sem lætur karla ekki ráðskast með sig heldur ráðskast með þá, jafnt í vinnu sem frítíma, en ekkert er fullkomið og svo bregðast krosstré og svo framvegis.

Í sögunni eru flestir karlmenn, ef karlmenn skyldi kalla, vonlausir eiginhagsmunaseggir, sem líta á konur eins og gluggaskraut, nauðgarar og persónur sem misnota börn og konur eins og að drekka vatn. Dusilmenni sem eiga ekkert gott skilið. Inn í frásögnina blandast upprifjun frá uppvexti Faye og hvernig hann mótaði hana að því sem hún nú er.

Silfurvængir er fyrst og fremst góð afþreying, þar sem lög og reglur eru bara orð á blaði, skáldskapur, sem hittir örugglega víða í mark.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson