Svana Jónsdóttir fæddist 18. ágúst 1939. Hún lést 17. október 2020.

Útför hennar fór fram 27. október 2020.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins

minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Mamma var engum lík, alltaf tilbúin með opinn faðminn og opinn huga. Hlý og mjúk, fagurkeri mikill en engu unni hún meira en fjölskyldu sinni og vinum, smáfólkið var henni allt og sérstaklega núna síðustu árin, þetta eru einu geðlyfin sem ég þarf, sagði hún þegar maður kom með litla afkomendur í heimsókn.

Hún var búin að berjast lengi við heilsubrest, var mjög þakklát þegar hún komst inn á Höfða og gat aftur farið að njóta sín í örygginu þar en saknaði sambúðarinnar við pabba en hann var einstaklega natinn við hana og hún kunni svo sannarlega að meta stundirnar sem þau áttu saman.

Við mamma vorum mjög nánar og eyddum ómældum tíma saman og voru það forréttindi að fá að dekra við hana síðustu árin því þótt líkaminn sviki hana þá vildi hún alltaf líta vel út og skreyta sig með skartinu sínu og láta greiða hárið sitt og klæðast fallegum og litríkum fötum. Skemmtilegustu stundirnar voru þegar ég kom með langömmukrílin til hennar, þá lifnaði svo um munaði yfir henni og það var oft erfitt að fara með þau í burtu því hún var strax byrjuð að sakna þeirra og í símtölum okkar á milli þá snerust þau oftar en ekki eingöngu um þau.

Hún skipti sér ekki af uppeldinu þegar ég skellti mér ung í móðurhlutverkið en var alltaf til í að veita ráð ef ég þurfti og bað um þau, þetta er eitthvað sem ég ákvað að hafa að leiðarljósi þegar dætur okkar Helga byrjuðu að eignast börn, ég sagði við þær að ég myndi ekki skipta mér af nema mér þætti þær vera að gera eitthvað rangt, mér finnst ég fyrir vikið fá að njóta þess í botn að vera „bara“ amma.

Mamma var alltaf á undan áætlun, óþarflega stundvís fannst okkur systkinunum stundum, en þetta hefur svo sem smitast yfir í okkur. Þegar skrokkurinn fór að svíkja hana og við þurftum að grípa meira inn í þá þurfti stundum að bremsa hana af því hausinn var í lagi og hún var farin að plana hlut D á meðan við vorum enn að vesenast í hlut A. En hún reyndi að sitja á sér.

Mamma var með mikla útgeislun og átti auðvelt með að gefa af sér og var ótrúlega félagslynd. Og það er því ansi leitt að geta ekki haft útför hennar með hefðbundnum hætt, hefðum alveg verið til í góða og glæsilega veislu hennar lífi til heiðurs en það bíður betri tíma og vonandi getum við þá slegið upp teiti sem hæfir drottningunni henni mömmu minni.

Andlát hennar bar frekar brátt að og greinilegt að maður er aldrei undir það búinn, þótt maður sé orðinn fullorðinn og kominn með smá í reynslubankann þá er vont að missa mömmu sína, bara ferlega vont.

Elsku mamma, takk fyrir allt. Við systkinin höldum áfram að hlúa að pabba og hvert að öðru eins og við erum búin að vera að gera síðustu dagana. Góða ferð í Sumarlandið, það verður án efa tekið vel á móti þér.

Elska þig, þín

Helga.

Á einum fegursta degi haustsins, lést kær vinkona okkar og vinnufélagi Svana Jónsdóttir. Dagurinn var fagur og góður eins og vinkona okkar var, en henni kynntumst við fyrst þegar hún byrjaði að vinna með okkur í Samvinnubankanum á Akranesi. Þar var góður og samstæður hópur sem hún féll vel inn í, enda með eindæmum jákvæð og glaðvær kona. Hún var ákaflega listræn og mikil handavinnukona, og nutum við konurnar þess aldeilis í öllu jólaföndrinu okkar á hverju ári. Við eigum eftir að sakna hennar mjög og þökkum fyrir árin okkar saman. Við sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og kveðjum kæra vinkonu og félaga með orðum skáldsins.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(G.J)

Fyrir hönd samstarfsfólks,

Hansína Hannesdóttir

Helga Dóra

Sigvaldadóttir.