Flytjendurnir Antonía Hevesi píanóleikari og Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran koma fram á hádegistónleikum. Tónleikunum verður streymt.
Flytjendurnir Antonía Hevesi píanóleikari og Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran koma fram á hádegistónleikum. Tónleikunum verður streymt. — Ljósmynd/Hólmar Hólm
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Það er sérstakt að koma fram með þessum hætti en maður verður bara öðru hvoru að loka augunum og ímynda sér að það séu áheyrendur í salnum.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Það er sérstakt að koma fram með þessum hætti en maður verður bara öðru hvoru að loka augunum og ímynda sér að það séu áheyrendur í salnum. Þetta verður óneitanlega öðruvísi,“ segir sópransöngkonan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir um hádegistónleika þeirra Antoníu Hevesi píanóleikara, sem verður streymt frá Hafnarborg í dag. Útsendingin hefst klukkan 12 en vegna samkomubannsins verða engir gestir í salnum. Slóðina má finna á heimasíðu Hafnarborgar og á facebooksíðu safnsins.

Kórónuveirufaraldurinn er sviðslistafólki erfiður og fá tækifæri til að koma fram en Hanna Þóra segist þó hafa náð að koma fram á tónleikum í Reykholti og heimabæ sínum, Akranesi, í vor þegar ástandið var betra. „Annars hefur verið lítið að gera. Við áttum til dæmis að vera í upptökum í ágúst, að taka upp óperu Daníels Bjarnasonar, Brothers , en það var flautað af. Þetta eru flóknir tímar. Ég er samt frekar heppin því ég starfa líka við annað, er sjúkraliði á lyflækningadeild sjúkrahússins hér á Akranesi, og reyni svo að syngja eins mikið og ég get.“

Aríur eftir eftirlætið, Puccini

Hanna Þóra hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akranesi árið 1996. Haustið 1999 innritaðist hún í Söngskólann í Reykjavík og þaðan lauk hún áttundastigsprófi vorið 2005. Hún hefur líka stundað söngnám í Kaupmannahöfn, Osló og Berlín. Hún hefur sungið ýmis óperuhlutverk og var meðal annars einsöngvari í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson sem sett var upp í Íslensku óperunni 2014.

Yfirskrift tónleika Hönnu Þóru og Antoníu í dag er „Dísætir tónar“ og munu valdar aríur hljóma.

„Ég nefndi nokkrar aríur og svo valdi Antonía úr þeim, og valdi vel,“ segir Hanna Þóra. „Ég hef mikið sungið þær allar gegnum tíðina. Puccini er eiginlega eftirlætisóperutónskáldið mitt og ég syng þrjár þekktar aríur úr La Bohème , meðal annars þær tvær sem Mimi syngur, og svo syng ég líka aríu úr Toscu og úr Adriana Lecouvreur eftir Cilea.“

Þegar blaðamaður hefur orð á að það sé kannski við hæfi að sjúkraliði syngi hlutverk berklasjúklingsins Mimiar, hún hafi innsýn í veikindi, tekur Hanna Þóra undir það.

„Það getur verið en þetta hlutverk snertir mig líka vegna þess að föðuramma mín dó úr berklum 33 ára gömul. Ég kynntist henni aldrei en skilst að ég sé mjög lík henni í útliti.

En mér finnst ég ná vel tilfinningalega utan um hlutverk Puccinis og lýríkin hans á vel við mig.“

Söng lög Sigfúsar í vitanum

Hanna Þóra bætir við að ef henni þykir vænt um einhverja tónlist og hrífst af, þá finnist henni hún eiga að syngja hana. „Sama hvort það er ópera eða dægurlag. Ég elska öll fallegu íslensku dægurlögin eins og eftir Sigfús Halldórsson, lögin hans eru í miklu uppáhaldi. Á aldarafmælinu hans í september fór ég í vitann hér á Akranesi og flutti með Jónínu Arnardóttur píanóleikara og skólastjóra í tónlistarskólanum hér þrjú lög eftir hann.“

Rétt eins og á tónleikunum í dag voru engir áheyrendur en flutningurinn tekinn upp og svo sendur út. „Tónlistin gefur okkur flytjendunum rosalega mikið en það er auðvitað ennþá betra að geta miðlað henni til annarra. En nú verðum við bara að hafa í huga að þótt gestir séu ekki í salnum verða samt einhverjir að hlusta og horfa. Ég reyni að sjá þá fyrir mér og mun gefa alveg jafn mikið af mér og væru gestir í salnum. Ef einhvern tímann hefur verið mikilvægt að tónlist fái að heyrast, þá er það núna,“ segir hún.