Lokað Stólar voru víða uppi á borðum í veitingahúsum Þýskalands í gær, en þeim hefur nú verið lokað næstu fjórar vikurnar vegna kórónuveirunnar.
Lokað Stólar voru víða uppi á borðum í veitingahúsum Þýskalands í gær, en þeim hefur nú verið lokað næstu fjórar vikurnar vegna kórónuveirunnar. — AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari kallaði í gær eftir því að samlandar hennar hlýddu nýjum sóttvarnaráðstöfunum, en veitingahúsum, krám og kaffihúsum var í gær lokað í fjórar vikur vegna kórónuveirufaraldursins.

Angela Merkel Þýskalandskanslari kallaði í gær eftir því að samlandar hennar hlýddu nýjum sóttvarnaráðstöfunum, en veitingahúsum, krám og kaffihúsum var í gær lokað í fjórar vikur vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við treystum á samstarf, samþykki og skilning þjóðarinnar til þess að þetta virki,“ sagði Merkel og bætti við að það væri í höndum hvers og eins að ná árangri nú í nóvember, en það væri forsenda þess að Þjóðverjar gætu haldið jólin ásamt fjölskyldum sínum í desember. Skólar verða áfram opnir, sem og dagvistarheimili og búðir, en aðgerðirnar eru sagðar „vægari“ útgáfa af þeim sem gripið var til í vor til þess að stemma stigu við fyrstu bylgju faraldursins. 12.097 tilfelli voru skráð í Þýskalandi í gær, og hafa nú rúmlega 545.000 Þjóðverjar smitast af kórónuveirunni og rúmlega 10.500 látist af völdum hennar.

Hvatning Merkel kom sama dag og vísindaráð Frakklands varaði við því að líklegt væri að ríki Evrópu myndu þurfa að ganga í gegnum fleiri bylgjur eftir áramótin, þrátt fyrir hertar aðgerðir, og að það yrði raunin þar til bóluefni finnst.