Nettó Netverslun hefur blómstrað í faraldrinum og þar eru matarinnkaup engin undantekning. Netverslun hefur margfaldast hjá Nettó á þessu ári.
Nettó Netverslun hefur blómstrað í faraldrinum og þar eru matarinnkaup engin undantekning. Netverslun hefur margfaldast hjá Nettó á þessu ári. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Netverslun Nettó hefur haldist stöðug frá því að þriðja bylgja heimsfaraldurs kórónuveiru hófst hér á landi. Þá virðist sem breytt kauphegðun sé komin til að vera.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Netverslun Nettó hefur haldist stöðug frá því að þriðja bylgja heimsfaraldurs kórónuveiru hófst hér á landi. Þá virðist sem breytt kauphegðun sé komin til að vera. Þetta segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Samkaupum. „Þetta er orðinn verulegur hluti af markaðnum og þróunin hefur verið mjög hröð. Netverslun er orðin það stór á stuttum tíma að þetta er breyting í kauphegðun til framtíðar,“ segir Gunnar.

Í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins margfaldaðist netsala Nettó og á tímabili annaði verslunin vart eftirspurn. Afkastagetan var af þeim sökum aukin.

Ná að anna mikilli eftirspurn

„Við lærðum alveg helling og breyttum um aðferðafræði, fórum af stað með vöruhús og bættum afkastagetu. Núna erum við að ná að anna allri eftirspurninni innan dagsins. Hins vegar getur afgreiðslutíminn lengst aðeins ef eftirspurnin eykst. Á Akureyrarsvæðinu er til dæmis gríðarlegt álag,“ segir Gunnar og bætir við að salan hafi minnkað í sumar. Hins vegar hafi hún tekið fljótt við sér í haust. „Í ágúst fjórfaldaðist salan og hefur frá þeim tíma verið jöfn. Á sama tíma hefur salan í verslunum haldið sér. Það er auðvitað enginn í útlöndum og margir veitingastaðir eru lokaðir. Það er því meira keypt í búðunum þó fólk fækki kannski ferðunum þangað. Helsta breytingin er að fólk fer sjaldnar og kaupir meira inn í einu,“ segir Gunnar.

Styrkja góð málefni

Nú á dögunum hrinti Nettó verkefninu, Notum netið til góðra verka, úr vör. Felur verkefnið í sér 200 kr. styrk til góðra málefna með hverri keyptri sendingu úr netverslun Nettó. Ef vel tekst til má ráðgera að styrkurinn kunni að hlaupa á milljónum króna. Fyrirtækið hefur óskað eftir tillögum um góð málefni frá viðskiptavinum. „Á laugardag komu 160 athugasemdir sem sýnir kannski hvar netverslun er stödd. Verkefnið verður í gangi út nóvember.“