Valgerður Sigurðardóttir
Valgerður Sigurðardóttir
Eftir Valgerði Sigurðardóttur: "Ungmennaráð borgarinnar höfðu þegar árið 2017 óskað eftir því að geðfræðsla fyrir nemendur á mið- og unglingastigi yrði efld."

Mjög miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á árinu 2020 enda hefur kórónuveirufaraldurinn sett mark sitt á daglegt líf allra landsmanna. Áhrifanna gætir alls staðar í samfélaginu en sóttvarnaaðgerðir hafa leitt til takmarkana á skólastarfi, ferðafrelsi og félagsstarfi svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur ástandið leitt til félagslegrar einangrunar ýmissa hópa í viðkvæmri stöðu líkt og eldri borgara. Þessi staða verður sífellt þyngri þar sem faraldurinn hefur dregist á langinn, ekki síst meðal viðkvæmra hópa. Með það í huga er mikilvægt að gerð verði úttekt á því hver raunveruleg staða er í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til úttekt á stöðu geðheilbrigðismála

Í borgarstjórn í dag mun ég fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík flytja tillögu um að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna kórónuveirunnar. Í kjölfarið verði unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir. Fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs verði falin gerð úttektar annars vegar og aðgerðaáætlunar hins vegar enda eru það þau svið Reykjavíkurborgar sem málið snertir helst. Vinnan verði jafnframt unnin í samstarfi við fagaðila á sviði geðheilbrigðismála ásamt fulltrúum frá samtökum sem sinna geðheilbrigðismálum. Lagt er til að vinnu við greiningu og aðgerðaáætlun ljúki eigi síðar en í árslok 2020 og niðurstöðunni verði skilað til borgarráðs. Aðgerðaáætlun komi til framkvæmda í ársbyrjun 2021.

Mikilvægt að bregðast við

Það ástand sem hefur skapast í samfélaginu vegna kórónuveirunnar bitnar illa á viðkvæmum hópum og því miður benda bráðabirgðatölur frá Ríkislögreglustjóra vegna sjálfsvíga til þess að staða geðheilbrigðismála sé þung. Alls var farið í 30 útköll vegna sjálfsvíga á fyrstu átta mánuðum ársins en útköll á sama tíma árið 2019 voru 18 talsins. Að óbreyttu stefnir í aukið atvinnuleysi og mun þrengri stöðu en núna er í samfélaginu og því brýn nauðsyn að bregðast við.

Félagsleg einangrun meðal ungmenna

Í ofanálag við kórónuveiruna er ástandið meðal barna og ungmenna ekki eins og best verður á kosið í geðheilbrigðismálum. Það er því hætt við að þeirra staða sé að versna þar sem félagsleg einangrun er töluverð meðal ungmenna sem ekki hafa mátt mæta í skóla og lítið hefur verið um virkt félagslíf. Ungmennaráð borgarinnar höfðu þegar árið 2017 óskað eftir því að geðfræðsla fyrir nemendur á mið- og unglingastigi yrði efld. Tillaga þess var samþykkt en hefur ekki komið til framkvæmdar. Það er mikilvægt að efla fræðslu um geðheilbrigði og ætti það að vera eitt af forgangsatriðum sem farið væri í núna.

Verum leiðandi

Mikilvægt er að við beinum athygli okkar að forvörnum og heilsueflingu í ríkara mæli, samhliða því að bæta kerfið sem tekst á við afleiðingar geðraskana. Reykjavíkurborg verður að hafa skýra stefnumótun og vera leiðandi í því að allir íbúar sveitarfélagsins setji geðheilsuna í forgang. Þrengri félagsleg staða vegna kórónuveirunnar gerir það enn brýnna en ella.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. valgerdur.sigurdardottir@reykjavik.is

Höf.: Valgerði Sigurðardóttur