Ingveldur Hilmarsdóttir fæddist í Reykjavík 27. júlí 1937. Hún lést á Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík 24. október 2020.

Foreldrar hennar voru Ásta Kjartansdóttir, f. 13. ágúst 1915, d. 8. mars 1986, og Hilmar J. Norðfjörð, f. 2. september 1906, d. 24. mars 1988. Þau skildu. Ásta giftist Erlendi Þorsteinssyni, f. 12. júní 1906, d. 10. júní 1981.

Ingveldur giftist Jóni Ingvarssyni, f. 10. febrúar 1937, d. 6. júní 2016. Börn þeirra eru: 1) Erlendur, f. 27. febrúar 1957, kvæntur Kristínu Einarsdóttur, f. 22. janúar 1958. Börn þeirra voru fjögur, eitt er látið. 2) Kjartan, f. 28. nóvember 1959, d. 30. nóvember 2006. Giftur Írenu Erlings, f. 7. apríl 1961. Börn þeirra eru tvö og barnabörn þrjú. 3) Ásta f. 18. október 1963, d. 14. ágúst 2006, gift Guðsteini Eyjólfssyni, f. 20. desember 1958. Þau skildu. Börn þeirra voru tvö og eitt barnabarn.

Nú þegar komið er að því að kveðja þig elsku frænka er margs að minnast en ekki er hægt að telja allt upp hér.

Inga var kornung þegar foreldrar hennar skildu og móðir hennar giftist Erlendi Þorsteinssyni sem reyndist henni besti fósturfaðir. Inga var mikið í Þrúðvangi á Laufásvegi 7 hjá afa Kjartani og ömmu Margréti. Hún gekk í Miðbæjarbarnaskólann sem var beint á móti. Ásta og Erlendur fluttu í Eskihlíð 21 og þar ólst Inga upp.

Við Inga urðum strax miklar vinkonur og leit ég alltaf upp til hennar þar sem hún var tveimur árum eldri en ég. Ásta og Erlendur voru mikið á ferðalagi þar sem hann var varaþingmaður Alþýðuflokksins og í síldarútvegsnefnd á Siglufirði svo hún fékk oft að gista á Ásvallagötunni heima hjá mér þannig að samband okkar varð nánara og leyndarmálin flugu á milli. Síðan fór Inga frænka til Elínar og Hannesar frænda í New York sem vann þá hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún fór í skóla þar og var einn vetur og tók sérnám í spænsku, sem kom sér vel seinna þegar hún og Jón maðurinn hennar keyptu hús á Spáni sem þau áttu í tíu ár og voru þar á hverjum vetri og heimsóttu börnin þau mikið þangað. Hún leysti mig af hjá Sjóvá eftir sjö ára vinnu þar sem ég gekk með fimmta barnið og í þá daga þurfti að fara heim til fólks og innheimta á staðnum. Seinna komu gíróseðlarnir og Inga var hækkuð upp á skrifstofu og var þar í nær þrjátíu ár. Inga og Jón ferðuðust mikið um landið og voru það ógleymanlegar ferðir sem við fórum með þeim, eins og í Landmannalaugar, Eldgjá og innar í landið, staðir sem ég hafði aldrei komið á, þetta var stórkostleg upplifun.

Það var ekki alltaf gleði sem fylgdi þeim hjónum. Þau misstu fyrsta barnabarn sitt, Jón Ingvar, 10 ára úr krabbameini í janúar árið 1990 og sorgin hélt áfram því Ásta dóttir þeirra barðist við krabbamein í fimm ár og lést í ágúst 2006. Kjartan sonur þeirra var fluttur til Danmerkur og var að glíma við MS-sjúkdóminn og kom heim til þess að fylgja systur sinni og þremur mánuðum seinna var hann dáinn, í nóvember 2006. Heilsu hrakaði hjá Ingu fljótlega eftir þetta og var hún meira og minna undir eftirliti lækna. Þau seldu húsið á Spáni 2014 vegna heilsubrests og varð það mikil breyting á lífi þeirra. Jón keyrði hana á Landspítalann til rannsóknar og aðeins nokkrum dögum seinna keyrði Erlendur Jón á Landspítalann vegna sýkingar í sári á hendi sem ekki var hægt að lækna og dó Jón viku seinna úr blóðeitrun. Inga var í dagvist á Borgum í Grafarvogi og var mjög ánægð þar, þar til hún veiktist í sumar og þurfti að fara á spítala, fyrst Landakot, síðan Vífilsstaði og endaði á Sléttuveginum þar sem hún kvaddi þessa jarðvist umkringd fjölskyldunni sinni.

Ég kveð þig í bili elsku frænka og þakka allt er við áttum saman.

Áslaug H.

Kjartansson.