Bergur Hauksson
Bergur Hauksson
Eftir Berg Hauksson: "Þeir sem hefðu átt réttindi missa þau vegna þess að stjórnvöld bönnuðu þeim að mæta til vinnu."

Lög um fæðingarorlof heyra undir barna- og félagsmálaráðherra (bfr) sem er svolítið sérstakt vegna þess að þá mætti ætla að lögin væru til að gæta að félagslegum réttindum og hagsmunum barna og frekar þyrfti að gæta að þeim börnum sem ættu verr stadda foreldra. Félagslegt öryggi er þegar ríkið verndar einstaklinga fyrir alls kyns efnahagslegum og félagslegum vandamálum, líkt og vandamálum sem tengjast m.a. veikindum, meðgöngu og fæðingu. Talið er að ríkinu beri skylda til að tryggja að einstaklingar sem á þurfa að halda fái bætur. Samkvæmt íslensku stjórnarskránni er ríkinu bannað að mismuna fólki með lögum, þó hefur verið talið að ríkinu sé heimilt að aðstoða þá sem minna mega sín umfram þá sem betra hafa það, en það virðist hafa breyst.

Lög um fæðingarorlof slógu alveg nýjan streng þegar kom að styrkveitingum ríkisins. Lögin kveða á um að ríkið skuli styðja þá sem hærri laun hafa umfram hina. Þetta eru eiginlega kapítalísk lög. Hjálpa skal hinum „duglegu“ en hinir geta étið það sem úti frýs. Einkennilegt að lögin heyri undir bfr nema það sé komin fram ný stefna um félagsmál og fullreynt með „aumingjana“ og rétt að ríkið einbeiti sér að því að styrkja þá sem betra hafa það og hafa sýnt hversu „duglegir“ þeir eru. Ekki að það þurfi að vera slæmt. Er þá ekki um að ræða ráðherra kapítalískra leiða sem og félagslegra. Með lögunum er ljóst að ríkið telur að börn sem eiga foreldra sem minna mega sín skuli fá að finna fyrir því hvernig það er og þess vegna sé ekki rétt að veita þeim sama styrk og foreldrum hinna „duglegu“. Um þessi lög er mikil sátt í þjóðfélaginu, sem sjá má á því að verkalýðshreyfingin styður þau sem og að sjálfsögðu bfr og Alþingi, og Hæstiréttur telur þau í samræmi við stjórnarskrána.

Í lögunum eru mörg ákvæði til að koma í veg fyrir að „aumingjarnir“ fái umfram það sem þeim ber. Svo kom kórónuveiran og bætti um betur. Veiran kom eins og himnasending til stjórnvalda vegna þess að þeir sem hefðu átt rétt misstu hann. Stjórnvöld bönnuðu fólki að mæta í vinnuna. Samkvæmt lögum er hægt að dæma fólk í þriggja ára fangelsi ef það mætir í vinnuna. Almennt er fólk þannig innstillt að það telur rétt að fylgja reglum stjórnvalda þótt þær séu ekki endilega alltaf gáfulegar, en það er kannski vegna þess að oft gefast ráð því verr sem fleiri koma saman.

Dóttir mín vinnur á hárgreiðslustofu og yfirvöld skipuðu að þeim yrði lokað m.a. í apríl. Vegna þess að dóttir mín var í skóla á þessum tíma vann hún einungis 25%-40% vinnu. Stjórnvöld ákváðu þá að koma fram með eitthvað sem nefnt hefur verið hlutabótaleiðin. Til að hún ætti rétt á leiðinni greiddi atvinnurekandi hennar henni mótframlag í apríl vegna þess að atvinnurekandinn hélt þá að hún ætti rétt á hlutabótaleiðinni. Starfshlutfall hennar lækkaði um 100% vegna þess að yfirvöld bönnuðu henni að vinna. Samkvæmt reglum um hlutabótaleiðina þurfti starfshlutfall að lækka um a.m.k. 20%, sem það hafði gert í hennar tilfelli. Hún þurfti hins vegar, til að eiga einhver réttindi, að vinna 50% vinnu, en það var bannað. Svo stjórnvöld sögðu henni að hún ætti ekkert inni hjá þeim, hvorki atvinnuleysisbætur né bætur í samræmi við hlutabótaleiðina. Eru þeir sem falla svona milli skips og bryggju kannski „aumingjarnir“ sem þarf að gæta að því að fái ekki of mikið? Falla þeir kannski ekki milli skips og bryggju?

Dóttir mín er barnshafandi og varð veik og þurfti þess vegna að fara í veikindafrí tveimur mánuðum fyrir ætlaðan fæðingardag. Enn og aftur leitaði hún á náðir stjórnvalda. Lög um fæðingarorlof kveða á um að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Skýrara gat þetta nú ekki verið svo dóttir mín sótti um réttindi í samræmi við framangreint og skilaði öllu sem henni bar að skila og beðið var um eins og t.d. læknisvottorði.

Svarið kom svo frá Vinnumálastofnun og það kom örlítið á óvart og var á þá leið að þar sem hún hefði ekki verið í vinnu í apríl ætti hún engan rétt! Stjórnvöld bönnuðu henni að mæta til vinnu í apríl og hún hlýddi því, enda þriggja ára fangelsi yfirvofandi ef hún mætti. Stjórnvöld neituðu henni um réttindi sem hún hefði átt fullan rétt á ef stjórnvöld hefðu ekki bannað henni að mæta til vinnu í apríl.

Þetta er jafn gáfulegt og ef atvinnurekandi hringdi í starfsmann sem væri með ráðningarsamning við hann og segði að hann þyrfti ekkert að mæta í vinnu næstu viku vegna þess að atvinnurekandinn ætlaði að nota tímann til að þrífa og mála en svo ætti starfsmaðurinn að mæta til vinnu eftir það. – Þegar launin voru svo greidd fékk starfsmaðurinn ekki laun vegna þessarar viku. Þegar hann spurðist fyrir um hverju það sætti sagði atvinnurekandinn að það væri vegna þess að hann hefði ekki mætt til vinnu.

Bfr var látinn vita af þessu og honum virðist hafa þótt þetta eðlilegt.

Höfundur er lögmaður og afi.

Höf.: Berg Hauksson