[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Páll Tryggvason fæddist á Húsavík 3. nóvember 1970 og ólst upp á Þverá í Reykjahverfi.

Sigurður Páll Tryggvason fæddist á Húsavík 3. nóvember 1970 og ólst upp á Þverá í Reykjahverfi. „Ég hef alltaf verið sveitastrákur í mér og verið í búskap meira og minna alla mína ævi, þótt ég hafi ekki búið í sveitinni allan tímann og má segja að ég sé núna hobbýbóndi með foreldrum mínum á Þverá.“ Sigurður Páll er rótgróinn í Reykjahverfinu enda á þriðju kynslóð sem hafa búið í sveitinni. „Á sumrin var maður í útileikjum og að hjóla og í fótbolta og svo var maður á snjóþotu á veturna að leika sér í snjónum auk þess sem maður fór snemma að taka þátt í búverkunum.“ Það er greinilegt að Sigurður er mikið náttúrubarn en hann er einnig mjög félagslyndur og áhugasamur um velferð náungans.

Sigurður er búfræðingur frá Hvanneyri og útskrifaðist tvisvar, lauk fyrst hefðbundnu búfræðinámi og bætti svo við rekstrarfræði frá búfræðideildinni. „Ég starfaði á sambýli á Húsavík og við liðveislu á mínum yngri árum. Eftir aldamótin flutti ég til Akureyrar og starfaði þar í tæp tíu ár á sambýli þar sem hluti íbúanna voru aldraðir og einnig var ég á þessum árum með allmarga skjólstæðinga í liðveislu. Ég hef mikinn áhuga á mannlegum samskiptum og þroska manneskjunnar og hefur alltaf fundist það skemmtileg áskorun að leiða fram styrkleika hvers og eins svo hann fái notið sín. Liðveislan fólst mikið í því að rjúfa félagslega einangrun skjólstæðinga minna og efla andlega og líkamlega heilsu þeirra.“

Hóflega stríðinn

Árið 2008 lauk Sigurður Páll prófi frá Nuddskóla Íslands, en hann sagði að á þeim tíma hafi hann verið farinn að huga að samspili líkama og andlegrar heilsu og vildi fá meiri þekkingu. „Þar var farið ítarlega í flesta þætti sem viðkoma heilsu, andlegri og líkamlegri, eins og næringarfræði, hreyfingu og líkamsbeitingu. Ég lærði þar að líta heildrænt á einstaklinginn, t.d. út frá göngulagi og hátterni sem var mjög lærdómsríkt.“

Það þarf ekki að tala lengi við Sigurð til að heyra að þar er mikill húmoristi á ferð, sem lætur sér annt um umhverfið og fólkið í kringum sig. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af fólki og viljað gera öðrum lífið léttara. Mér finnst gaman að glettast við fólk og er hóflega stríðinn, nema eiginkonunni finnst það stundum mega vera í minna mæli. Ég kann að meta hreinskilni fólks.“

Náðu að jarma sig saman

Margir muna frá voðaveðrinu árið 2012 þegar fjöldi kinda fór undir snjó á Norður- og Norðausturlandi og bændur misstu margt fé. Sigurður rifjar upp að hann hafi ásamt föður sínum farið upp í fjall að leita að fé, nánast daglega vikum saman. „Þetta var síðan nokkrum vikum eftir veðurofsann og enn verið að leita. Það var mjög kyrrt og gott veður og við vorum staddir í þröngum litlum dal og allt á kafi í snjó. Það var algjör kyrrð, þegar mér fannst ég heyra smá jarm langt í burtu og reyndi að horfa vel í kringum mig en sá ekkert. Ég prófaði að jarma á móti, gerði það nokkrum sinnum og þá heyrði ég jarmið aftur og fór þá að gruna að þetta væri hugsanlega jarm undir snjó og kannski nær en mig hafði grunað. Þá fór ég að leita á ýmsum stöðum hvar skepnan gæti verið undir snjó. Við jörmumst á, ég og þessi skepna, og smám saman geng ég á hljóðið. Þar sem jarmið heyrðist best, þá reyni ég að stappa niður fótunum og dett niður á holu og þar er þá eitt lamb, en ærin var dauð undir lambinu, sem var byrjað að narta í mömmu sína til að geta lifað af. Þetta var 4-6 vikum eftir að kindurnar lentu í snjónum og í raun ótrúlegt að lambið hafði lifað þetta af.“

Prestakall í Laufási

Eiginkona Sigurðar Páls, Sólveig Halla Kristjánsdóttir, er prestur og bjó fjölskyldan eitt ár í Laufási meðan hún sinnti þar afleysingaprestþjónustu frá 2018-2019. Sigurður vann þá á Grenivík og vinnufélagar hans þar kölluðu hann gjarnan prestakall og honum hafi fundist það svo skemmtilegt að hann ætli bara að halda þeim titli til streitu. Víst er að Sigurður heldur áfram að huga að þeim sem þurfa aðstoð og honum er tíðrætt um stöðu aldraðra í þjóðfélaginu. „Við ættum að sýna þeim eldri enn þá meiri virðingu, því þetta er jú fólkið sem ruddi nýjar brautir og byggði svo margt gott upp sem við búum að og eigum að varðveita og fara vel með.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar Páls er Sólveig Halla Kristjánsdóttir, f. 14.1. 1977, sóknarprestur í Húsavíkursókn. Foreldrar hennar eru hjónin Kristján Hermannsson, f. 18.12 1939, og Jórunn Sigtryggsdóttir, f. 11.8. 1950, d. 25.6. 2002, bændur í Lönguhlíð í Hörgárdal. Kristján er nú ekkill og býr á Akureyri.

Börn Sigurðar og Sólveigar eru Heiðdís Dalrós, f. 27.2. 2010, og Kristján Páll, f. 9.3. 2012. Börn úr fyrri samböndum eru Sindri Már, f. 26.4. 1993, starfar á Plastiðjunni Bjargi og býr á sambýlinu Þrastarlundi á Akureyri; Adam Lárus, f. 14.4. 1995, grunnskólakennari á Selfossi og Mjalldís Ósk, f. 3.2. 2001. Dóttir hennar er Alena Mist, f. 19.3. 2018, og þær búa á Akureyri.

Systkini Sigurðar Páls eru Óskar, f. 26.2. 1967, starfsmaður hjá Jarðborunum hf., búsettur í Reykjahverfi; Aðalheiður, f. 23.3. 1968, skólaliði á Húsavík, og Unnsteinn, f. 24.10. 1976, starfsmaður á Meðferðarheimilinu á Laugalandi og býr í Eyjafjarðarsveit.

Foreldrar Sigurðar Páls eru hjónin Tryggvi Óskarsson, f. 18.3. 1942, og Árdís Sigurðardóttir, f. 8.7. 1947, bændur á Þverá, þar sem þau hafa búið allan sinn búskap.