Selfoss Bygging bankans við Austurveg var tekin í notkun 1953. Frumteikningar voru eftir Guðjón Samúelsson, hinn kunna húsameistara.
Selfoss Bygging bankans við Austurveg var tekin í notkun 1953. Frumteikningar voru eftir Guðjón Samúelsson, hinn kunna húsameistara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ýmsar skoðanir eru uppi meðal Selfossbúa um þær fyrirætlanir Landsbankans að selja húsið við Austurveg þar í bæ, sem hýst hefur starfsemi bankans í bænum allt frá 1953.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ýmsar skoðanir eru uppi meðal Selfossbúa um þær fyrirætlanir Landsbankans að selja húsið við Austurveg þar í bæ, sem hýst hefur starfsemi bankans í bænum allt frá 1953. Byggingin var auglýst til sölu fyrir helgina og tvær fasteignasölur í bænum eru með eignina á skrá. „Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið afar sterk. Í því ljósi tel ég að þessi eign seljist fljótlega,“ segir Þorsteinn Magnússon, lögg. fasteignasali hjá Árborgum á Selfossi.

Hvelfing í kjallaranum

Í umræðum á samfélagsmiðlum lýsa nokkrir vonbrigðum með fyrirhugaða sölu hússins, en aðrir sjá tækifæri í stöðunni. Segja að þarna gæti til dæmis verið menningarstarfsemi eða veitingastaðir. Safn með listaverkum úr eigu safnsins er hugmynd sem Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur varpað fram. Aðrir telja að nær hefði verið að efla starfsemi Landbankans í húsinu á Selfossi og fjölga störfum þar í stað þess að byggja nýjar höfuðstöðvar í Reykjavík.

Hús Landsbankans er kjallari, tvær hæðir og ris, að flatarmáli samtals 1.214 fermetrar að flatarmáli. Í kjallara er peningahvelfing ásamt vinnurýmum, miðhæðin hýsir aðalstarfsemi bankans og er innréttuð með opnu rými og skrifstofum, á annarri hæð eru skrifstofur og fundarherbergi og í risi eru mötuneyti og samkomusalur. Í dag leigir Sveitarfélagið Árborg 2. hæð byggingarinnar fyrir skrifstofur en hitt nýtist bankanum. Áður fyrr voru tvær íbúðir í húsinu, fyrir húsvörð í kjallara og útibússtjóra á 2. hæð, en því rými hefur fyrir löngu verið breytt.

Eðlileg eftirsjá

„Það er ósköp eðlilegt að margir muni sjá eftir útibúinu úr húsinu, bæði starfsfólk og viðskiptavinir, en húsið er orðið alltof stórt fyrir starfsemi okkar í dag. Áður þurfti mikið pláss til dæmis fyrir peninga- og skjalageymslur, nokkuð sem nú er meira eða minna allt orðið rafrænt,“ segir Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans. „Ef eignin selst fyrir ásættanlegt verð stendur vilji bankans til þess að leigja húsnæðið í kannski tvö til fimm ár af nýjum eigendum, semjist um slíkt. Við erum því ekki á förum úr húsinu alveg strax.“

Úti á landi er starfsemi Landsbankans í tveimur húsum sem eru sviplík byggingunni á Selfossi. Stórhýsið við Ráðhústorg á Akureyri sem var reist á árunum 1949-1954 og Landsbankahúsið á Ísafirði sem var reist á árunum 1956-1958. „Húsnæðismál bankans eru í stöðugri endurskoðun og á hverjum tíma er leitast við að finna þar hagkvæmar lausnir og byggingar sem henta starfseminni sem er alltaf að breytast,“ sagði Rúnar Pálmason. Nú stæði til dæmis til að koma afgreiðslu bankans á Djúpavogi í ný húsakynni og fleira væri í skoðun.