Halldór Gunnarsson
Halldór Gunnarsson
Eftir Halldór Gunnarsson: "Ekki er hægt að una við það kerfi í íslenskum landbúnaði, sem skilar ekki bændum launum fyrir störf sín með uppbyggingu og stækkun búa sinna."

Sagt hefur verið að það sé hugsjón í dag að vera sauðfjárbóndi. En hvað um mjólkurbóndann? Ætli það sé auðvelt að vera við dyr banka og fjármálastofnana eftir leit að nýju veði fyrir hækkandi láni til að geta stækkað búið? Svör bankastofnana: Þú færð ekki lán nema þú stækkir búið enn meira og fjárfestir meira. Þú verður að kaupa aukinn mjólkurkvóta og um leið verður þú að stækka fjósið og kaupa fleiri tæki, þau nýjustu og afkastamestu sem eru á markaði.

Af tvennu illu er auðveldara að vera þvingaður til að lifa af hugsjón en að lifa nær alla ævi í endalausu kapphlaupi við að kaupa kvóta í mjólkurframleiðslu eða sauðfjárframleiðslu, sem fást ekki keyptir með venjulegum viðskiptaháttum. Mjólkurframleiðsla umfram kvóta, er nær verðlaus í dag, um 4 kr. á lítra og seldur dilkur án kvóta greiðir ekki nema örlítinn hluta af framleiðslukostnaði.

Kvótinn

Kvóti var settur á þessar tvær hefðbundnu búgreinar til að stjórna framleiðslunni, sem var aðgangur að beingreiðslum til bænda, um 12 milljörðum á ári. Þrátt fyrir það lifa bændur ekki af þessari framleiðslu, nema þeir geti aukið framleiðsluna verulega, sem tiltölulega fáir hafa getað gert, því mjög lítill kvóti fæst keyptur á markaði vegna bundins lágmarksverðs. Kvótinn bindur þetta fjármagn bænda án möguleika til verðmætaaukningar við þessar aðstæður og er algjör andstæða við fiskveiðikvóta að þessu leyti. Verðið fer ekki eftir eftirspurn heldur uppgefnu lámarksverði sem miðað er við.

Kvótinn hindrar þannig í dag allar framfarir í þessum búgreinum og því verður að breyta verðlagningu kvóta, sem heimild til niðurgreiddrar framleiðslu, með uppkaupum ríkisins af handhöfum, eftir því sem þeir hætta framleiðslu. Við það gæti yngri kynslóð tekið við af þeirri eldri, sem fengi greitt fyrir kvótann sem hún hefur áunnið og viðhaldið eða keypt dýru verði. Leyfi til framleiðslu vegna uppkaupa ríkisins af slíkum kvóta væri úthlutað smátt og smátt án verðs, með tilliti til þess að góð bú gætu stækkað.

Afurðastöðvarnar

Bændum er sagt að þeir eigi afurðastöðvarnar og geti stjórnað þeim. Reyndin virðist vera sú að forstjórar stjórni og að bændur á aðalfundum eða í stjórn fái þar engu ráðið. Hvernig er háttað greiðslum til bænda fyrir afurðirnar frá afurðastöðvunum? Sama og ætíð áður. Allir fá sitt í framleiðslu til neytenda nema bændur. Við þá er sagt: Þetta er það sem er eftir. Sauðfjárbóndinn fær t.d. tæplega eitt læri úr búð fyrir lambið sem hann lagði inn.

Afurðastöðvarnar eru í dag einokunarstöðvar gagnvart bændum, því það er engin samkeppni á þessum markaði. Þær ráða hvað kemur til sölu frá þeim og á hvaða verði. Einnig ber að líta til hinna þriggja stóru viðskiptaaðila, Festi, Haga og Nettó (kaupfélögin), hver með sína afurðastöð án samkeppni í kaupum þar á milli. Síðan verður að skoða uppgjörsaðferðir, þar sem þær ráða hvernig hagnaði eða veltu er skipt milli vinnslu og sölu.

Það verður að ná fram samkeppni milli afurðastöðva um afhendingu afurða inn á opinn frjálsan markað með gegnsæi í útreikningum á afurðarverði til bænda. Einnig verður að tryggja að framleiðendur geti selt afurðir sínar beint til neytenda, sem koma heim á framleiðslustað eins og gert er erlendis.

Ný landbúnaðarstefna

Ekki er hægt að una áfram við það kerfi í íslenskum landbúnaði, sem skilar ekki bændum launum fyrir störf sín með uppbyggingu og stækkun búa sinna. Það er hvorki hægt að lifa þar af hugsjón né í skuldaklöfum.

Núverandi beingreiðslur til bænda, áður niðurgreiðslur ríkisins, til að lækka verð til neytenda miðast við framleiðslu og hvetur til umframframleiðslu. Þetta kerfi er ekki samanburðarhæft við niðurgreiðslur í öðrum löndum.

Það þyrfti að taka upp landbúnaðarkerfi með samskonar stuðningi og þekkist annars staðar í Evrópu, sem miðast við nýtingu jarðarinnar sem hver ábúandi býr á. Miða stuðning ríkisins við verndun landsins og nýtingu en ekki framleiðsluna. Ef um umframframleiðslu er að ræða á markaði, minnki bændur landnot sín til framleiðslunnar, ella sé stuðningurinn minnkaður.

Þessar breytingar gætu náðst fram með aðlögun á lengri tíma frá núverandi kerfi til þess sem við tæki, þannig að bændur yrðu ekki fyrir fjárhagslegum skaða, en fengju ný tækifæri til að auka tekjur sínar og frelsi til sóknar.

Eitt tækifærið er að opnast við útgöngu Breta úr EB, sem þyrfti að bregðast við strax til að geta nýtt möguleika á útflutningi á skyri sem MS í dag lætur erlenda aðila framleiða fyrir sig með sérleyfissamningum úr erlendum hráefnum og þar með lakari vöru.

Fleiri tækifæri ætti að nýta, t.d. að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu gagnvart innflutningi út frá Parísarsamkomulaginu með því að setja á sérstakt kolefnisgjald á vörur sem eru framleiddar á Íslandi.

Samþykkja ætti sérstök lög á Alþingi, sem hindri innflutning á afurðum sem framleiddar eru með mikilli lyfjanotkun sem getur þannig myndað óheilbrigða samkeppni við innlenda framleiðslu og valdið neytendum heilsutjóni. Einnig þarf strax að koma í veg fyrir tollamisnotkun, þegar unnið kjöt er flokkað sem óunnið við innflutning.

Höfundur er fyrrverandi bóndi og sóknarprestur í Holti.

Höf.: Halldór Gunnarsson