Hardhaus Uppfyllir kröfur um veiðigetu og meðferð á afla.
Hardhaus Uppfyllir kröfur um veiðigetu og meðferð á afla.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ísfélagið í Vestmannaeyjum hefur fest kaup á norska uppsjávarskipinu Hardhaus.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ísfélagið í Vestmannaeyjum hefur fest kaup á norska uppsjávarskipinu Hardhaus. Skipið er væntanlegt í síðasta lagi í febrúar og verður þriðja skipið í uppsjávarflota Ísfélagsins, en fyrir eru Heimaey VE, smíðuð í Síle 2012, og Sigurður VE, smíðaður í Tyrklandi 2014.

„Við erum bjartsýnir og trúum á góðar loðnuvertíðir fram undan,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins. „Vonandi verðum við byrjaðir á loðnuveiðum á þeim skipum sem við erum með þegar Hardhaus kemur frá Noregi. Mælingin á eins árs loðnu var ákaflega góð í haust og við gerum ráð fyrir stórum loðnukvóta 2022. Eins og málin hafa þróast reyna menn að vinna sem mest af aflanum til manneldis og þá þarf fleiri skip.“

Hardhaus var smíðaður í skipasmíðastöðinni Fitjum í Noregi 2003 og er 68,8 metrar á lengd og 13,83 m á breidd. Stefán segir skipið vel búið og aðalvél, spil, tankar og kæligeta uppfylli þær kröfur sem Ísfélagið geri um veiðigetu og meðferð á afla. Kaupverð skipsins er trúnaðarmál.

Hardhaus hefur verið gerður út frá Bekkjarvik, skammt frá Bergen. Útgerðin á von á nýju skipi frá Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi í mars-apríl á næsta ári.

Stefán segir að eftir einstaklega góða vertíð á norsk-íslenskri síld í haust séu rólegheit hjá uppsjávarskipunum. Fram undan sé einn túr á íslensku síldina og hugsanlega annar á kolmunna. Á Þórshöfn sé verið að undirbúa veiðar og vinnslu á bolfiski, sem fari í gang í vikunni.