Guðni Einarsson Jóhann Ólafsson Staða kórónuveirufaraldursins á Norðurlandi er að þyngjast og var Sjúkrahúsið á Akureyri fært á hættustig á laugardaginn var, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis á upplýsingafundi almannvarna í gær.

Guðni Einarsson

Jóhann Ólafsson

Staða kórónuveirufaraldursins á Norðurlandi er að þyngjast og var Sjúkrahúsið á Akureyri fært á hættustig á laugardaginn var, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis á upplýsingafundi almannvarna í gær.

„Það er ótrúlegt að heyra dæmi frá starfsfólki í verslunum sem lýsir hótunum frá viðskiptavinum þegar þeim er leiðbeint í verslunum,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum. Fólk hafði í hótunum og nánast beitti ofbeldi þegar bent var á grímuskyldu í verslunum.

„Þetta er svo mikið kjaftæði að ég trúi ekki að við séum að takast á við þetta núna,“ sagði Víðir. Hann sagði að samfélagslega mikilvæg og ómissandi starfsemi, t.d. í matvælaiðnaði eða einstaka stórfyrirtæki, fengi undanþágur frá hertum samkomutakmörkunum. Á laugardaginn var bárust um 300 beiðnir um undanþágur frá hertum reglum sem tóku gildi á miðnætti á föstudag. Víðir sagði æskilegt að ekki væri sótt um undanþágu nema um lífsnauðsynlega ástæðu væri að ræða.

Um 70 bakverðir við störf

Í fyrri bylgju faraldursins var nefnt hvort opna ætti farsóttarsjúkrahús. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði nýlega að hugleiða þyrfti að flytja aðhlynningu Covid-19-sjúklinga á aðra stofnun en Landspítalann. Ekki sé hægt að búa við það lengi að fólk komist ekki í valkvæðar aðgerðir.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, kvaðst ekki vera viss um að sérstakt farsóttarsjúkrahús þyrfti til að leysa vandann.

„Það þarf að tryggja flæði fólks sem lokið hefur meðferð á Landspítalanum og að geta sent það annað þar sem það fær viðeigandi þjónustu. Sérstakt Covid-sjúkrahús mun ekki leysa það vandamál,“ sagði Páll. „Það er og verður verkefni þjóðfélagsins næstu áratugina að tryggja þjónustu fyrir okkar elstu borgara, þegar þeir geta ekki búið lengur einir. Ekki bara að byggja húsnæði heldur að finna peninga til að reka þá þjónustu.“ Hann sagði að þjóðin hefði elst og því fylgdi þetta gríðarstóra verkefni eins og reynsla þjóða sem við viljum bera okkur saman við sýnir.

Páll segir að enn sé svigrúm á Landspítala til að taka við Covid-19-sjúklingum ef þörf er á. Staðan er þó síbreytileg og fundar farsóttarnefnd spítalans fyrst klukkan 7.30 á morgnana og svo reglulega allan daginn og langt fram á kvöld. „Spítalinn getur brugðist við og tekið að sér gríðarlega erfið verkefni, tímabundið. En þá þurfa aðrir hlekkir í keðjunni að taka að sér þá sjúklinga sem lokið hafa meðferð og þurfa að útskrifast. Það er áskorunin,“ sagði Páll. Sjúkrahús í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar og Reykjalundur hefðu öll tekið við sjúklingum af Landspítalanum í miklum mæli auk fleiri staða.

Um 70 bakverðir eru komnir til starfa á Landspítalanum, þótt stöðugildin séu ekki jafn mörg. Páll vonar að bakvörðum fjölgi og reynt sé eftir megni að fá hæft starfsfólk. Verkefni spítalans hvíli þó fyrst og fremst á fastráðnu, þaulreyndu starfsfólki spítalans sem leggi nótt við dag. Reynsla bakvarðanna er misjöfn og stundum nýtist hún best á öðrum stofnunum, þannig að hægt sé að útskrifa fólk annað af Landspítalanum.

Enginn á gjörgæslu á Akureyri

„Miðað við það sem var í fyrstu bylgjunni segir tölfræðin að við getum átt von á að fá 10-12% af því sem Landspítalinn sér hjá sér miðað við svæðið sem við þjónum aðallega,“ sagði Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk). Í gær voru 68 sjúklingar inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19. Samkvæmt því mætti búast við 7-8 sjúklingum á Akureyri. Á SAk lágu þrír sjúklingar með Covid-19 í gær og enginn þeirra á gjörgæslu.

Bjarni sagði að SAk gæti tekið við 8-15 sjúklingum með Covid-19, áður en grípa þarf til verulegra ráðstafana. Hægt er að taka við allt að 34 sjúklingum ef allt fer á versta veg. Við þær aðstæður mundi ríkja neyðarástand á sjúkrahúsinu.

Ekki hefur komið til tals að SAk taki við sjúklingum af Landspítalanum til að létta þar á. „Það þarf mikið að ganga á áður en til þess kemur,“ sagði Bjarni. SAk hætti með valkvæðar skurðaðgerðir í síðustu viku og eins hefur verið dregið úr annarri valkvæðri starfsemi.

Lítil legudeild á Eyrarbakka

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), sagði að þar væru ekki inniliggjandi sjúklingar með Covid-19. Aðstaða og áætlun er til hjá HSU ef þarf að setja upp slíka deild.

Díana segir að HSU hafi stigið inn með stuðning hjá Sólvöllum, heimili aldraðra á Eyrarbakka, þegar upp kom Covid-19-smit hjá 11 heimilismönnum. Hjúkrunarfræðingur frá HSU hefur starfað þar síðan á miðvikudaginn var. Útbúin var lítil legudeild fyrir heimilisfólk sem smitaðist. Aðrir fóru í annað húsnæði í sóttkví. Sýni eru tekin reglulega hjá þeim.

Hjá HSU er hólfuð deild þar sem tekið er við sjúklingum sem mögulega geta verið smitaðir af Covid-19. Þeim er haldið aðskildum frá öðrum þar til niðurstaða sýnatöku er ljós.