Birgir Jónsson
Birgir Jónsson
Birgir Jónsson hefur sagt starfi sínu lausu sem forstjóri Póstsins en hann tók við starfinu í maí í fyrra þegar fyrirtækið var á barmi gjaldþrots.

Birgir Jónsson hefur sagt starfi sínu lausu sem forstjóri Póstsins en hann tók við starfinu í maí í fyrra þegar fyrirtækið var á barmi gjaldþrots. Í tilkynningu frá Íslandspósti sagði að Birgir hefði leitt mikið umbreytingastarf hjá fyrirtækinu sem skilað hefði miklum viðsnúningi á vettvangi þess.

Í færslu sem Birgir birti á Linkedin í kjölfar tíðindanna skýrði hann frá því að með aðkomu sinni hefði hann viljað sýna fram á að hægt væri að reka ríkisfyrirtæki á sama hátt og öll önnur fyrirtæki.

„Þetta hefur verið algjörlega frábært verkefni en ég taldi að nú væri rétti tíminn til að skipta um við stýrið, stærstu rekstrarmálin eru leyst og önnur sjónarmið, og svo það sé bara sagt hreint út pólitískari sjónarmið, fara að skipta meira máli. Þetta er kannski eðlilegt í ljósi eignarhaldsins. Ég sem rekstrarmaður finn mig hins vegar ekki alveg nógu vel í slíkri stöðu og tel mig ekki hafa mikið að gefa í henni.“

Í tilkynningu fyrirtækisins segir að Birgir muni gegna starfi forstjóra þar til eftirmaður hans verður ráðinn til starfa.