Johnny Depp
Johnny Depp
Leikarinn Johnny Depp tapaði í gær máli sem hann höfðaði gegn breska dagblaðinu The Sun, eftir að hann var í blaðinu vorið 2018 sagður hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína, Amber Heard, andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Leikarinn Johnny Depp tapaði í gær máli sem hann höfðaði gegn breska dagblaðinu The Sun, eftir að hann var í blaðinu vorið 2018 sagður hafa beitt fyrrverandi eiginkonu sína, Amber Heard, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Depp hafði krafist þess að ummælin yrðu dæmd ómerk en talsmenn Sun fullyrtu að þau væru sönn.

Málflutningurin stóð í rúmar tvær vikur í London í júlí og vakti mikla athygli fjölmiðla enda Depp með kunnustu leikurum samtímans.

Í úrskurði dómarans segir að The Sun hafi sýnt fram á að mikið væri til í því sem kæmi fram í greininni.

Depp hefur einnig höfðað mál í Bandaríkjunum gegn Heard, eftir að hún birti í Washington Post grein þar sem lögmaður Depps segir að gefið sé í skyn að hann hafi beitt Heard ofbeldi, sem hann harðneitar. Lögmaður hennar sagði í gær að í málaferlunum vestanhafs yrðu lagðar fram enn frekari sannanir fyrir því að svo hafi verið.

Í úrskurði dómarans í gær segir að vörn Depps hafi snúist um að sýna fram á að Heard hafi sett upp blekkingaleik til að hafa af honum fé en sú hafi ekki verið raunin, heldur sé víst að ásakanir hafi átt við rök að styðjast.