Hákarl Lítil hreyfing, kuldi og myrkur lykill að háum aldri.
Hákarl Lítil hreyfing, kuldi og myrkur lykill að háum aldri. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Lykillinn að háum aldri virðist vera að hreyfa sig lítið og halda sig í kulda og myrkri að minnsta kosti fyrir hákarl, segir meðal annars á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar þar sem fjallað er um rannsóknir á heila 245 ára gamals hákarls.

Lykillinn að háum aldri virðist vera að hreyfa sig lítið og halda sig í kulda og myrkri að minnsta kosti fyrir hákarl, segir meðal annars á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar þar sem fjallað er um rannsóknir á heila 245 ára gamals hákarls. Samkvæmt niðurstöðum nýbirtrar vísindagreinar fundust nánast engin þekkt merki öldrunar eins og hún lýsir sér í heila manna með próteinútfellingum og æðakölkun í heila hákarlsins. Jafnframt sáust engin merki um taugahrörnun.

Klara Jakobsdóttir, sérfræðingur á botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, er einn af höfundum greinarinnar, en umræddur hákarl veiddist í haustralli Hafrannsóknastofnunar 2017 djúpt vestur af landinu. Rannsóknir hafa bent til að hákarl geti náð óvenjulega háum aldri eða hæstum aldri allra hryggdýra, jafnvel allt að 4-500 árum. Því var markmið rannsóknarinnar að athuga hvort greina mætti svipuð áhrif öldrunar í heila hákarla eins og þekkt eru í heilum manna og rotta.

Höfundar greinarinnar leiða líkum að því að umhverfi og atferli séu ástæður þess hversu lengi hákarl lifir án sýnilegra áhrifa öldrunar á heila. Hákarl er talinn hægsyndur og heldur að mestu til í stöðugu en köldu umhverfi á tiltölulega miklu dýpi í sjó sem er um 4°C heitur. Þetta veldur því að líklega eru efnaskipti hæg og vísbendingar eru um að blóðþrýstingur hákarls sé mun lægri en hjá öðrum hákarlategundum, segir á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. aij@mbl.is