Snjallbær Snjalltækni getur nýst á flestum sviðum samfélagsins, segir Hrafn Guðbrandsson, hér við rusladallana sem eru við Strandgötuna.
Snjallbær Snjalltækni getur nýst á flestum sviðum samfélagsins, segir Hrafn Guðbrandsson, hér við rusladallana sem eru við Strandgötuna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fyrstu skrefin í snjallvæðingu Hafnarfjarðabæjar hafa nú verið tekin með uppsetningu veðurstöðvar loftgæðamæla og skynjara í rusladöllum á miðbæjarsvæðinu. Lýsir hf.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fyrstu skrefin í snjallvæðingu Hafnarfjarðabæjar hafa nú verið tekin með uppsetningu veðurstöðvar loftgæðamæla og skynjara í rusladöllum á miðbæjarsvæðinu. Lýsir hf. í Hafnarfirði og starfsfólk þar hafa útbúið þessa tækni. „Almenningur kallar eftir upplýsingum sem aftur má nýta til þess að skila samfélaginu margvíslegu hagræði,“ segir Hrafn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Lýsis, í samtali. Búnaðurinn var kynntur í sl. viku en í Hafnarfirði er vilji til þess að innleiða þessa tæknilausn víðar í starfsemi bæjarins.

Veðurstöð á bókasafnshúsi

„Við bindum miklar vonir við snjalltækni og að hún auki skilvirkni, hagræðingu og geti bætt þjónustu við íbúa,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Af hálfu bæjaryfirvalda er horft til þess sem kallað er „snjallborg“ með skilvirkari þjónustu að leiðarljósi. Er núna meðal annars í skoðun að í Hafnarfirði verði settir upp heitir reitir á fjölförnum stöðum í bænum; það er svæði þar sem er aðgangur að þráðlausu neti og upplýsingaveitum á netinu. Þar hafa Thorsplan við Standgötu og tjaldsvæðið á Víðistaðatúni verið nefnd.

Veðurstöðin í Hafnarfirði er á þaki bókasafnshússins á horni Reykjavíkurvegar og Strandgötu. Hún er tengd svonefndu LoRaWAN-kerfi, sem Lýsir á og rekur, og á vef Hafnarfjarðarbæjar er hægt að nálgast upplýsingar um til dæmis úrkomu, vindátt og -hraða, svikryksmengun, uppgufun, sólargeislun og loftþrýsting auk veðurspár.

Skynjarar sem starfsfólk Lýsir hefur forritað og virkjað hafa nú verið settir í rusladalla í Strandgötu í Hafnarfirði og verður komið fyrir víðar á næstunni. Búnaður þessi greinir hve mikið er í stömpum þessum og sendir upplýsingar þar um til þeirra sem stýra sorphirðu. Hreinsunarfólk er þá aðeins sent út á örkina ef tunnurnar eru orðnar fullar. Fyrrnefndir skynjarar ganga fyrir sparneytnum rafhlöðum sem nýtast í allt að fimm til tíu ár.

Vakti bílastæði og stýri götuljósum

„Snjalltækni getur nýst á flestum sviðum samfélagsins. Möguleikarnir eru endalausir og við erum alltaf með spennandi verkefni í þróun,“ segir Hrafn Guðbrandsson. „Vöktun á bílastæðum er meðal verkefna sem við erum með í vinnslu, betri nýting þeirra er áherslumál víða. Þá erum við að útbúa lausn við stjórn götuljósa, sem er með rauntímaeftirliti þannig að lýsingin verður skilvirkari, og öruggari en nú.“