Jöfnunartæki „Svo er skólinn líka bara jöfnunartæki, að nemendur komi, fái að borða og geti talað við fullorðna um líðan sína. Það er algjört lykilatriði að við fáum nemendur sem mest hingað inn,“ segir Jón Pétur Zimsen.
Jöfnunartæki „Svo er skólinn líka bara jöfnunartæki, að nemendur komi, fái að borða og geti talað við fullorðna um líðan sína. Það er algjört lykilatriði að við fáum nemendur sem mest hingað inn,“ segir Jón Pétur Zimsen. — Morgunblaðið/Eggert
Reglugerð menntamálaráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna kórónuveirufaraldursins tekur gildi í dag. Í reglugerðinni er meðal annars kveðið á um grímuskyldu fyrir börn í fimmta bekk og upp úr. Einnig er kveðið á um fjöldatakmarkanir.

Reglugerð menntamálaráðherra um takmörkun á skólastarfi vegna kórónuveirufaraldursins tekur gildi í dag. Í reglugerðinni er meðal annars kveðið á um grímuskyldu fyrir börn í fimmta bekk og upp úr. Einnig er kveðið á um fjöldatakmarkanir.

Til að aðstoða við skólahald sendi biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sóknum þjóðkirkjunnar bréf á sunnudag þess efnis að þær brygðust við og byðu fram, þar sem hægt er að koma því við, safnaðarheimilin undir skólastarf.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, velti því upp í samtali við Morgunblaðið í gær hvort ekki hefði verið einfaldast að koma á grímuskyldu fyrir alla aldurshópa grunnskóla. Hrefna segir mikilvægt að reglurnar séu einfaldar og skýrar.

„Maður skilur auðvitað að það getur verið snúið fyrir yngri börnin að hafa þær á sér en ég held að það sé alltaf sveigjanleiki og skilningur með það, þetta er líka nám, að læra að nota grímu, snúa því upp í leik. Við erum auðvitað að tala um börn og mismunandi þroskastig og taka þarf tillit til þess,“ segir Hrefna.

Vel undir grímuskyldu búin

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla í Reykjavík, segir nemendur og starfsfólk skólans vel búið undir nýjar reglur. Nemendur við skólann hafa notað grímur undanfarnar tvær vikur. Jón segir að mikið sé lagt upp úr loftræstingu í skólanum auk grímunotkunar.

„Við erum svo heppin að vera með svalahurðir í mörgum stofum og getum opnað í gegn. Svo keyptum við viftur fyrir stofur sem eru ekki með hurðir og þá getum við sett viftur við gluggana og blásið inn fersku lofti í stofurnar þar sem loftið er frekar kyrrt. Maður verður að leita leiða til að koma loftinu í gang. Þetta er líka ódýr lausn sem hefur mikil áhrif, eins og með grímurnar,“ segir Jón.

Jón segir það skipta mestu að nemendur hafi fasta viðveru í skólanum „fyrir andlega heilsu, að hafa eitthvað fyrir stafni og að það reyni vitsmunalega á þau í skólanum. Það er ekkert út í bláinn að þau séu í skólanum, við þurfum að halda áætlun og ég held að það muni takast betur núna en í fyrstu bylgju,“ segir Jón. liljahrund@mbl.is