Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Á nýrri vefsíðu Samtaka atvinnulífsins, holdumafram.is, sem verður opnuð í dag, leggja samtökin fram ýmsar tillögur til úrbóta þannig að skilyrði skapist á ný til vaxtar í samfélaginu. Á vefsíðunni eru einnig birtar sögur úr atvinnulífinu, frá stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja. Þá geta allir reiknað út framlag síns fyrirtækis til samfélagsins í sérstakri reiknivél á vefnum.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir að verkefninu Höldum áfram sé ætlað að horfa fram á veginn. „Við munum á einhverjum tímapunkti sjá fyrir endann á kórónuveirufaraldrinum. Það er mikilvægt að huga að því hvernig við ætlum að vaxa saman og sem allra fyrst út úr kreppunni,“ segir Ásdís.
Allir að glíma við áhrifin
Hún segir að landsmenn allir séu að glíma við áhrif kreppunnar og ljóst sé að efnahagslegur kostnaður sé mikill. „Hingað til hafa aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst miðað að því að milda höggið gagnvart þeim sem hafa lent í mesta tekjufallinu og margt verið vel gert í þeim efnum. Við viljum hins vegar með okkar framtaki horfa fram á við og varða leiðina áfram,“ segir Ásdís.Hún segir að eina raunhæfa leiðin út úr kreppunni sé að skapa skilyrði til vaxtar þannig að unnt sé að verja störf og skapa ný. „Við byggjum velferð okkar á að hér gangi vel. Ef fyrirtækjum í landinu gengur vel gengur starfsfólkinu vel og öfugt. Það þarf að tryggja umhverfi sem styður við fjárfestingu og nýsköpun og skilyrði til hóflegrar skattlagningar sem þó stendur undir samneyslunni. Leiðin út úr kreppunni er ekki að setja auknar byrðar á starfsfólk og fyrirtæki, sem við sem samfélag treystum á að komi til með að standa undir viðspyrnunni.“
Ásdís segir mikilvægt að líta á atvinnulífið og samfélagið sem eina heild. „Saman stöndum við sterkari og saman skiptum við sköpum. Forsenda þess að við getum endurheimt þau lífskjör sem við höfum búið við síðustu ár er að auka verðmætasköpun í landinu.“
Tillögur í sex liðum
Á vefsíðunni koma SA með tillögur í sex liðum að mögulegum umbótum á ýmsum sviðum sem varða leiðina áfram. „Ein af okkar tillögum snýr til dæmis að skattastefnu stjórnvalda og miðar hún fyrst og fremst að því að örva eftirspurn og skapa störf. Við áttum okkur á því að staða ríkissjóðs er grafalvarleg, skatttekjur í dag standa ekki undir samneyslunni,“ segir Ásdís. „Þannig er ljóst að takmörk eru fyrir verulegum skattalækkunum nema til komi tiltekt í opinberum rekstri eða að efnahagsumsvif taki við sér. Við viljum impra á þeirri staðreynd að allt helst þetta í hendur. Við teljum mikilvægt nú í ljósi stöðunnar að ráðast í fáar en góðar skattkerfisbreytingar.“Ásta segir að tímabært sé að huga að heildarendurskoðun á tryggingagjaldinu. Ítrekað hafi það gerst að tryggingagjaldið hafi hækkað á samdráttarskeiðum eða í kjölfar þeirra. „Nú þegar afleiðingar kreppunnar endurspeglast einna helst í stigvaxandi atvinnuleysi má sú leið ekki verða farin. Við teljum brýnt að endurskoða tryggingagjaldið þannig að girt sé fyrir sveiflumagnandi áhrif þess. Við teljum best að um sé að ræða eitt gjald sem gildir yfir alla hagsveifluna en tryggir um leið fulla fjármögnun sjóðsins.“
Önnur tillaga snýr að fasteignasköttum. „Við teljum að sveitarfélögin geti ekki gert ekki neitt þegar ein versta efnahagskreppa gengur yfir. Þau þurfi að sýna ábyrgð.“