Linda Guðrúnardóttir
Linda Guðrúnardóttir
Eftir Lindu Guðrúnardóttur: "Hvatning til þríeykisins og landans, í formi ljóðs."

Ég bíð hérna spennt við tækið

eirðarlaus og orðin þreytt.

Þarna kemur þríeykið

skyldi allt vera orðið breytt?

Óvissa og ótti

vofir yfir enn.

En óþekkt og geðþótti

hrjáir margar konur og menn.

Spritt, grímur og þvottur

það þvælist fyrir Gunnu og Geir.

Að þvo sér eins og þrif-óður köttur

þau geta ekki meir ...

Samhugur eða sundrung

hvert viljum við fara?

Út í ána, hún er straumþung

eða yfir brúna, það er öruggara.

Þórólfur, Alma og Víðir

þau byggðu þessa brú.

Víði honum ég hlýði

og hin eru heilbrigðishjú.

Palli, hann var einn í heiminum

en nú er hann kominn í mynd.

Hann heldur uppi spítalageiminu

sem í dag er okkar helsta auðlind.

Heilbrigði eða sprungur

hamingja eða sorg.

Róðurinn er þungur

í okkar fallegu borg.

Höldum fjarlægð og virðum hvert annað

því metrar eru málið í dag.

Að knúsa og kyssa er bannað

sameinumst í andlegt þjóðarfaðmlag.

Eitt augnablik, eitt skref, einn dagur

þetta líður og brátt verður ár.

Látum hvern dag heita einstakur og fagur

þó í birtingu hann virðist bara grár.

Við getum þetta öll, við erum saman

leiðumst í gegnum þennan byl.

Seinna við höfum það gaman

og minnumst þess sem gaf okkur yl.

Baráttukveðjur áfram!

Höfundur er ljóða-, texta- og lagahöfundur. lindagudrunar@gmail.com

Höf.: Lindu Guðrúnardóttur