[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andrés Magnússon andres@mbl.is Úrslitin í bandarísku forsetakosningunum vefjast fyrir mönnum vestanhafs, en þó má líklega slá því föstu að ósigurvegarar þessara kosninga séu skoðanakönnuðir vestra, sem enn einu sinni virðast hafa mælt fylgið svo skakkt að miklar efasemdir eru uppi um aðferðafræðina.

Fréttaskýring

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Úrslitin í bandarísku forsetakosningunum vefjast fyrir mönnum vestanhafs, en þó má líklega slá því föstu að ósigurvegarar þessara kosninga séu skoðanakönnuðir vestra, sem enn einu sinni virðast hafa mælt fylgið svo skakkt að miklar efasemdir eru uppi um aðferðafræðina.

Flækja kjörmannakerfisins

Þetta er engan veginn í fyrsta sinn sem skoðanakannanirnar vestra reynast misvísandi um kosningaúrslit í forsetakosningum þar. Að sumu leyti er könnuðum vorkunn. Hið flókna kjörmannakerfi í bandarísku forsetakosningunum gerir að verkum að kannanir á landsvísu geta aldrei gefið rétta mynd af stöðunni. Sérstaklega auðvitað þegar mjótt er á munum og úrslit í fámennum ríkjum geta haft mikil áhrif.

Þess vegna þurfa könnuðir að notast við ýmis stærðfræðilíkön, vega úrtökin miðað við samsetningu kjósenda, áætla hreyfingu á skoðanamyndun í einu ríki út frá rannsóknum á nálægu og svipuðu svæði. Allt er það auðvitað mjög vandasamt, jafnvel vafasamt, þegar úrslit geta ráðist á örfáum atkvæðum.

Árið 2016 reyndust kannanirnar svo hlálega rangar að skoðanakönnuðir lögðust í mikla naflaskoðun og komust að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu verulega vanmetið ýmsa þjóðfélagshópa, einkum hina minna menntuðu og snauðari, sem Trump reyndist svo glúrinn við að kalla til fylgis við sig.

Dræm svör eða ónýt aðferð

Þrátt fyrir það blasir við að aðferðirnar hafa ekki skánað mikið síðan. Líkt og sjá má á línuritinu að ofan reiknaðist mönnum svo til að Joe Biden væri að jafnaði með 5-8 prósentustiga forskot á Trump. Hann kann vel að reynast hlutskarpari, en ekki í neinni líkingu við þann mun.

Þetta sást vel þegar tölurnar í Flórídu tóku að berast, en allt fram á síðustu stundu bar öllum könnunum saman um að Biden myndi hafa þar rúman sigur. Höfðu könnuðir þó sérstaklega reynt að vanda sig þar, minnugir skekkjunnar síðast.

Öll eiga fyrirtækin erfitt með að draga svör út úr fólki, aðallega vegna ómaksins. Ekkert þeirra vill segja til um svartíðni, en sagan segir að hún sé á bilinu 3-5% þeirra sem hringt er í. Það er frekar þunnur og háll ís til þess að byggja nákvæmar niðurstöður á.

Svo kannski niðurstaðan sé sú að kannanir geti verið skemmtilegur samkvæmisleikur, en ekkert til þess að byggja á umfram viðtekin sannindi um styrkleikahlutföll flokka á tilteknum svæðum. Sem menn lesa úr kosningaúrslitum, öðru ekki.

Spálíkönin reyndust vel

„Ég held að það sé aðeins of snemmt að fella stóra dóma um stöðu skoðanakönnunarinnar í samfélaginu,“ segir Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Að einhverju leyti er sagan þó að endurtaka sig, þar sem sumar kannanir hafa verið fjarri úrslitunum, en annars staðar hafa þær reynst mjög nákvæmar.“

Hulda telur að helstu spálíkön hafi reynst vel í aðdraganda kosninganna, sagt fyrir um þá stöðu sem uppi var eftir kosningarnar, að úrslitin yrðu víða tvísýn, að bíða þyrfti eftir úrslitum í Pennsylvaníu og þar fram eftir götunum.

„Heilt á litið, eins og staðan er núna, brugðust skoðanakannanir ekki. Ekki á heildina litið, þó þær hafi vissulega gert það á einstaka stöðum. En þær hafa klárlega ofmetið fylgi Bidens víða, þar er einhver skekkja.“