Hjördís Guðbjartsdóttir fæddist 11. október 1933. Hún andaðist 4. júlí 2020.

Útför Hjördísar var gerð í kyrrþey.

Við viljum minnast Hjöddu frænku okkar með þessum skrifum þótt seint sé.

Hjödda frænka. Við vorum bara litlar stelpur þegar við munum fyrst eftir henni, kannski 3 og 5 ára, fyrir meira en fjörutíu árum.

Hjödda hafði mjög sterka nærveru. Hún var náfrænka móður okkar og ólst að einhverju leyti upp með stórum systkinahóp mömmu en Hjördís og móðir hennar, Guðrún Salvör Sumarliðadóttir, deildu á tímabili heimili með systur Guðrúnar, ömmu okkar, sem einnig hét Guðrún Sumarliðadóttir. Það er svona þegar nöfnin koma í draumi.

Frá þessum tíma og lengi framan af var Hjördís því alltaf eins og ein af systrunum, heimsóknir voru tíðar á milli húsa á okkar uppvaxtarárum og mikið verið að koma saman til hátíðabrigða. Þá var Hjördís alltaf með. Eða þannig munum við það.

Það gustaði alltaf af Hjöddu frænku og það fór ekkert á milli mála ef hún var komin í heimsókn; hávaxin og glæsileg, með sterka rödd og miklar skoðanir. Hún var líka ólík öllum öðrum í fjölskyldunni af því hvað hún hafði ferðast víða - hún var heimsborgari.

Heimsborgari sem kom oftar en ekki færandi hendi. Fyrir litlar systur sem voru vanar að fá að gramsa í pokum af notuðum fötum var alltaf gaman að fá gjafir frá Hjöddu frænku. Og kannski var það Hjödda frænka sem gaf okkur systrum viðurnefnið „prúðu systurnar“ en við höfum líklega ekki þorað annað en að vera stilltar því hún kleip alltaf svo fast í kinnarnar á okkur að það var betra að láta það ganga hratt yfir en að fara að tefja það með masi.

Þegar við fórum með mömmu á Seljaveginn til Hjördísar og Gunnars var jafnan boðið upp á heitt súkkulaði. Alvöru heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og eitthvað með því. Þar voru líka sígarettur í gylltu statívi á dúklögðu borði innan um listaverk á veggjum og fagurskreytta muni á gljáandi fráleggsborðum. Munir og hlutir sem var alveg bannað að snerta eða að fikta í. Það var alltaf svo fínt hjá Hjöddu frænku og heimsborgarabragur eins og á henni sjálfri alla tíð. Við vissum að Hjördís lærði og starfaði við hjúkrun í nokkur ár í Danmörku en það var ekki fyrr en í sumar að við heyrðum af því hvernig hún hafði ferðast um Sýrland ein síns liðs en síðan þá hafði hún víst mikið dálæti á Mið-Austurlöndum og Sýrlandi þá sérstaklega.

Við minnumst Hjördísar með hlýhug. Hún var okkur systrum alltaf góð og vildi okkur alla tíð vel. Það fór ekkert framhjá okkur.

Hún var líka góð við mömmu svona. Flestar minningar um Hjördísi eru hlýjar og fjalla um heimboð, heimsóknir, heitt súkkulaði og gjafir og hvernig hún spurði okkur alltaf af miklum áhuga um hvernig gengi hjá okkur, líka þegar við vorum orðnar stálpaðar og vaxnar úr grasi. Svona fundum við fyrir hennar hlýju í okkar garð alla tíð. Henni var ekki sama um okkur og okkur var ekki sama um hana þótt ryk hafi fallið á samskiptin síðustu árin. Við kveðjum Hjördísi með söknuði og hlýju, hún lifir í minningum okkar.

Rakel Hildardóttir

Sara Stef. Hildardóttir.