Sungið á Hrafnistu Dægurflugur sveimuðu um sali á Hrafnistu við Laugarás þegar söngvararnir Kristján Jóhannsson og Geir Ólafsson komu í heimsókn og sungu við undirleik Þóris Baldurssonar.
Sungið á Hrafnistu Dægurflugur sveimuðu um sali á Hrafnistu við Laugarás þegar söngvararnir Kristján Jóhannsson og Geir Ólafsson komu í heimsókn og sungu við undirleik Þóris Baldurssonar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Vegna hraðrar fjölgunar eldri borgara á næstu árum og áratugum þarf að byggja eitt eða tvö hjúkrunarheimili á ári til að halda í við þjónustuna.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Vegna hraðrar fjölgunar eldri borgara á næstu árum og áratugum þarf að byggja eitt eða tvö hjúkrunarheimili á ári til að halda í við þjónustuna.

Einnig þarf að bæta mikið í forvarnir, endurhæfingu, heimahjúkrun og heimaþjónustu til að draga úr þörf fyrir innlagnir á hjúkrunarheimili. Sá gangur sem nú er í þessum málum dugar ekki. Raunar telja margir viðmælendur að illa sé staðið að þessari þjónustu og vísa til þess að samtökin sem reka hjúkrunarheimilin fái ekki greiðslur frá ríkinu í samræmi við þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita.

Stærsti hópurinn sem flytur á hjúkrunarheimili eru 80 ára og eldri þótt einnig þurfi hluti fólks á áttræðisaldri á þjónustu þeirra að halda. Nú eru fjölmennir árgangar að komast á þennan aldur auk þess sem fólk lifir lengur. Hagstofan spáir því að fjöldi 80 ára og eldri tvö- til þrefaldist næstu þrjátíu árin á sama tíma og landsmönnum í heild fjölgar aðeins um 15%. Það verða færri hendur að vinna fyrir útgjöldum samfélagsins vegna þjónustunnar sem veikir eða ellihrumir eldri borgarar þurfa á að halda.

Beðið í sex mánuði eftir plássi

Ástandið er ekki gott fyrir. Samkvæmt upplýsingum embættis landlæknis voru að meðaltali 407 landsmenn á biðlista eftir hjúkrunarrými á þriðja fjórðungi þessa árs. Biðlistar hafa lengst á undanförnum árum enda hefur uppbygging hjúkrunarheimila mikið gengið út á að bæta aðbúnað á þeim hjúkrunarheimilum sem fyrir eru, meðal annars með því að taka tvíbýli úr notkun. Þegar nýtt heimili bætist við, eins og Hrafnista á Sléttuvegi fyrr á þessu ári, sjást þessi merki á biðlistum en þeir fara síðan fljótt í fyrra horf og halda áfram að lengjast.

Það tekur tíma fyrir veikt fólk að fá færni- og heilsumat og komast þannig inn á biðlista og eru hinir opinberu biðlistar því frekar vanmat en ofmat á þörfinni.

Meðalbiðtími fólks sem flyst á hjúkrunarheimili er nú 186 dagar og hefur mikið verið að lengjast, eins og sést á meðfylgjandi grafi. Biðtíminn er því sex mánuðir. Stefna stjórnvalda er að biðtíminn verði ekki lengri en þrír mánuðir. Þess ber að geta að fáir einstaklingar sem bíða lengi af einhverjum ástæðum, gætu til dæmis hafa fengið færni- og heilsumat en ekki þegið vist á hjúkrunarheimili, geta haft mikil áhrif á biðtímann, sérstaklega í minni heilsuumdæmum. Landlæknir reiknar því einnig út miðgildi í biðtíma sem embættið telur gefa betri mynd af stöðunni en meðalbiðtími. Sá útreikningur hefur sýnt 60-70 daga biðtíma það sem af er þessu ári.

Biðtíminn er afar misjafn eftir heilbrigðisumdæmum. Lengst er biðin á Vestfjörðum en styst á Suðurlandi. Höfuðborgarsvæðið, þar sem mesti fjöldinn býr, er aðeins yfir meðaltalinu.

Biðlistar munu lengjast

Heilbrigðisráðuneytið stefnir að því að byggja heimili með 578 nýjum hjúkrunarrýmum samkvæmt framkvæmdaáætlun sem gildir til ársins 2024. Ef maður gefur sér að byggð verði hjúkrunarheimili með 500 rýmum á hverju áratug, sem er bjartsýn áætlun miðað við söguna, dugar það skammt og biðlistar munu margfaldst. Þörfin er líklega sú að byggja þurfi eitt til tvö hundruð rýma hjúkrunarheimili á ári, næstu þrjá áratugina.

Nú er langur biðlisti sem þarf að ná niður. Fólk fær almennt ekki tækifæri til að komast inn á hjúkrunarheimili fyrr en það er orðið veikt enda er dvalartíminn yfirleitt fáein ár. Það hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks og lífsgæði ef það þarf að bíða lengi í biðrými eftir plássi á hjúkrunarheimili, að mati embættis landlæknis.

Heilbrigðisráðherra vill koma upp 200 hjúkrunarplássum í Reykjavík á næstu árum. Viðræður standa yfir á milli ríkis og Reykjavíkurborgar um lóðir og fjármögnun og verður staðsetning heimilanna gerð opinber á næstu vikum. Þá er eftir að deiliskipuleggja svæðið, hanna heimili og byggja. Búast má við að það taki fimm til sjö ár. Svo þarf að fá einhvern til að reka heimilin. Ekki eru biðraðir eftir að komast í þennan rekstur, eins og daggjöldin eru í dag. Hvorki ríkið né sveitarfélögin vilja bjóða þjónustuna út því þau vilja ekki vera ábyrg fyrir fjármálunum ef illa fer og rekstrinum verður skilað til baka. Reiptogi Seltjarnarnesbæjar og ríkisins um rekstur nýja heimilisins á Seltjarnarnesi lauk með því að ríkið fól félagi í sinni eigu að reka heimilið.

Vantar millistig

Mikið er rætt um aukna heimaþjónustu sveitarfélaga og heimahjúkrun á vegum heilsugæslunnar en minna hefur orðið úr því en efni standa til. Með því að auka þjónustu við fólkið er hægt að draga úr þörfinni fyrir hjúkrunarheimili.

„Það er dýrt fyrir okkur sem þjóð að reka hjúkrunarheimili. Okkur vantar þarna millistig, forvarnir fyrir fólkið sem er að eldast til að það geti haldið heilsu og dvalið lengur heima. Örfá endurhæfingarrými eru til fyrir þennan hóp. Þá þarf að efla mjög heimahjúkrun,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna. Eigi að síður þurfi að byggja upp hjúkrunarheimili til að taka við fólki þegar kostnaður við aðhlynningu heima er orðinn meiri en við dvöl á hjúkrunarheimili.

Unnið er að því að setja á fót nýtt þverfaglegt öldrunarteymi í Reykjavík. Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að höfuðmarkmið þess sé að gera fólki kleift að búa lengur í eigin húsnæði. Í því verði læknar og hjúkrunarfræðingar. Teymið hefur aðsetur hjá Læknavaktinni og mun vinna í nánu samstarfi við heimahjúkrun Reykjavíkurborgar. Gerður hefur verið samningur við Sjúkratryggingar um rekstur teymisins.

Danir standa betur að málum

Stjórnarformaður Öldungs hf., rekstrarfélags hjúkrunarheimilisins Sóltúns, telur vert að líta til Danmerkur um skipulag við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Þar sé þjónustan skipulögð þannig að almennt myndist ekki biðlistar, öfugt við það sem hér er. Telur Þórir Kjartansson að miðað við ganginn í uppbyggingu hjúkrunarheimila og aukna þörf fyrir hjúkrunarrými stefni í mikla biðlista á næstu árum og áratugum.

Þórir segir að málaflokkurinn í Danmörku sé á ábyrgð sveitarfélaganna en þó þannig að ríkið tryggi þeim næga fjármuni til að standa undir uppbyggingu og rekstri. „Það er á ábyrgð dönsku sveitarfélaganna að byggja upp þá þjónustu sem dugir fyrir alla íbúa sem þurfa á þjónustunni að halda. Þau eru sektuð ef þau eiga ekki nægilegt rými og sektirnar eru það háar að það borgar sig fyrir stjórnendur sveitarfélaganna að fylgjast með þörfinni og byggja jafnóðum upp. Sveitarfélögin byggja ýmist upp sjálf eða fela einkaaðilum að gera það. Stefna ríkisins er að vera með fyrirframskilgreindan hlut hjúkrunarheimila einkarekinn en meirihlutinn er samt rekinn af sveitarfélögum. Það skapar meiri sveigjanleika og valmöguleika fyrir fólkið í landinu,“ segir Þórir.

Hann bendir á að mikill þjóðhagslegur ávinningur skapist við að útrýma biðlistum, eins og gert er í Danmörku, og það sé auk þess réttlætismál og spari fjármuni.

Bærinn hefur ekki efni á þessu

„Staðan er ómöguleg. Sveitarfélagið hefur verið að greiða 10 til 12 milljónir á ári með rekstrinum og við höfum sætt okkur við það til að hafa stjórn á starfseminni. Nú stefnir í 37,5 milljóna króna halla. Ef þetta heldur svona áfram hefur Snæfellsbær ekki efni á því að greiða 400 milljónir með rekstrinum næstu tíu árin og er því nauðugur einn kostur að skila heimilinu til ríkisins. Það er slæmt því við veitum frábæra þjónustu,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, um rekstur lítils hjúkrunar- og dvalarheimilis, Jaðars í Ólafsvík.

Hann segir að ef bærinn neyðist til að hætta rekstrinum sé hætt við að hann verði skorinn niður. Segir Kristinn að búið sé að fá einstakling til að taka út reksturinn til að athuga hvort bærinn standi að honum með réttum hætti.

Spurður um skýringar á hallarekstri segir Kristinn að það gleymist oft að fólk komi seinna inn á hjúkrunarheimili en áður og veikara. Það þurfi meiri umönnun, lyfjagjafir og þvíumlíkt. Þá hafi launakostnaður rokið upp. Daggjaldið sem heimilið fái sé langt frá því að mæta kostnaði. Hann nefnir einnig að heimilisfólk fái líknandi meðferð þegar að því kemur. Þá þurfi að bæta við fólki. Þetta sé mikill kostur í nærsamfélaginu. Makinn og aðrir úr fjölskyldunni geti verið hjá ástvini sínum á þessum stundum og skipst á, í stað þess að þurfa að aka í tvo til þrjá tíma á aðrar stofnanir.