Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum hinn 12. október sl., þar sem lagt er til að sérstöku refsiákvæði fyrir svonefnt umsáturseinelti sé bætt í lögin.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum hinn 12. október sl., þar sem lagt er til að sérstöku refsiákvæði fyrir svonefnt umsáturseinelti sé bætt í lögin. Alls hafa sjö umsagnir borist og eru þær allar jákvæðar, taka undir markmið frumvarpsins sem og styðja framgangs þess.

Jákvæðar umsagnir um frumvarpið hafa komið frá Ákærendafélagi Íslands, lögreglustjóraembættunum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Þá lýsa félagasamtök á borð við Kvenréttindafélag Íslands og Mannréttindastofu Íslands einnig stuðningi við frumvarpið.

Í umsögnum er bent á að breytingar sem lagðar eru til samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að breytingin er nú lögð til í tengslum við fullgildingu Íslands á Istanbúl-samningnum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Frumvarpið er samið af refsiréttarnefnd en ráðherra fól nefndinni að taka til athugunar hvort sérstakt lagaákvæði um umsáturseinelti skorti í íslensk lög eftir nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á málum tengdum fullgildingu Istanbúl-samningsins.

Sérstök ákvæði um umsáturseinelti er að finna í norskum, sænskum og finnskum lögum.

Orðið umsáturseinelti er íslensk þýðing orðsins „stalking“ og þykir nokkuð lýsandi fyrir verknaðinn að „sitja um“ manneskju í óþökk hennar, eins og fram kemur í greinargerð. Áður hefur orðið eltihrellir verið notað en merking þess þykir fullþröng og takmörkuð.

Ákvæðinu er ætlað að treysta frekar vernd kvenna og barna hér á landi en til viðbótar eru fyrir ákvæði um nálgunarbann og brottvísun af heimili.