Flug Icelandair heldur úti lágmarksstarfsemi nú um stundir vegna kórónuveirunnar en félagið segist tilbúið í slaginn þegar færi mun gefast.
Flug Icelandair heldur úti lágmarksstarfsemi nú um stundir vegna kórónuveirunnar en félagið segist tilbúið í slaginn þegar færi mun gefast. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Það má færa rök fyrir því að við mat á þeirri ríkisábyrgð sem var veitt við fjárhagslega endurskipulagningu Iceladnair Group hafi ekki nægilegt tillit verið tekið til þeirra neikvæðu efnahagslegu áhrifa sem það hefði haft ef Icelandir hefði hætt starfsemi.“ Þetta segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum en hann hefur ritað grein á vefsíðu bankans um áhrif björgunar Icelandair á efnahagslega uppbyggingu hér á landi.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það má færa rök fyrir því að við mat á þeirri ríkisábyrgð sem var veitt við fjárhagslega endurskipulagningu Iceladnair Group hafi ekki nægilegt tillit verið tekið til þeirra neikvæðu efnahagslegu áhrifa sem það hefði haft ef Icelandir hefði hætt starfsemi.“ Þetta segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum en hann hefur ritað grein á vefsíðu bankans um áhrif björgunar Icelandair á efnahagslega uppbyggingu hér á landi.

Sé aðeins litið til mögulegra umsvifa Icelandair á komandi árum og gengið út frá því að ekkert innlent flugfélag myndi fylla í skarð þess, þá myndi hagvöxtur minnka um 1,5 prósentustig 2022 og 2023 við brotthvarf félagsins.“

Þannig bendir Gústaf á að í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbankans sé gert ráð fyrir að meðalhagvöxtur áranna 2021-2023 verði um 4,5%. Hefði fjárhagsleg endurskipulagning flugfélagsins ekki gengið eftir hefðu horfurnar lækkað í 3,4% á árunum 2022 og 2023.

Beðinn um að slá á fjárhæð í þessu sambandi segir Gústaf að þetta jafngildi 45 milljarða innspýtingu í hagkerfið.

„Það er á við 2-3 loðnuvertíðir hvort ár um sig þannig að þetta eru verulegar fjárhæðir. En þá verður líka að taka inn í reikninginn að umsvif Icelandair hafa víðtækari áhrif í formi meiri umsvifa annarra ferðaþjónustufyrirtækja, auk þess að fyrirtækið hefur fjölda hálaunafólks í starfi. Auk þess getum við séð fyrir okkur að þau umsvif sem við færum á mis við með brotthvarfi Icelandair myndu leiða til veikari krónu og þar með hærri verðbólgu en þetta eru breytur sem ekki er tekið tillit til í þessum útreikningum.“

Spurður út í hvort ekki felist í því of mikil einföldun að láta sem engin félög myndu fylla skarð Icelandair ef það hyrfi af sjónarsviðinu, segir Gústaf að nálgun hans gangi ekki út á það.

„Það gætu félög sinnt flugi til og frá landinu en það er ósennilegt að nýtt innlent félag gæti gert það í sama mæli og Icelandair hefur gert, að minnsta kosti næstu árin og þá er ósennilegt að erlend flugfélög myndu sinna þjónustunni með sama hætti og Icelandair hefur gert. Við uppbyggingu ferðaþjónustu eins og þeirrar sem hér hefur verið byggð upp skiptir framboðið á flugsætum ekki minna máli en eftirspurnin. Raunar hefur verið sýnt fram á að uppbygging ferðaþjónustu á eyjum eins og Íslandi er framboðsdrifin fremur en eftirspurnardrifin.“

Langtímahorfurnar mun betri en skammtímahorfurnar

Gústaf segir að hagvaxtarhorfur hér á landi byggist að miklu leyti á því hvernig okkur tekst til við að laða erlenda ferðamenn til landsins.

„Þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði um hálf milljón í ár, þeim fjölgi í 650 þúsund á næsta ári og að þeir verði 1,3 milljónir 2022 og 1,9 milljónir 2023 og þá erum við farin að nálgast þann fjölda sem hingað kom 2018. Icelandair mun leika algjört lykilhlutverk í flutningi þessa fólks til og frá landinu. Það sést á þeirri einföldu staðreynd að um 60% þeirra 2 milljóna ferðamanna sem hingað komu í fyrra ferðuðust með Icelandair.

Gústaf segir áætlanir þær sem hagfræðideildin hefur birt um þróun ferðamannafjöldans nokkurn veginn í takti við áætlanir IATA um endurreisn flugstarfsemi í heiminum að kórónuveirufaraldrinum loknum.

„Langtímahorfurnar eru mun betri en skammtímahorfurnar. Þess vegna skipti miklu máli að fleyta Icelandair yfir þessa erfiðleika. Líkt og fram kom í lagafrumvarpinu um ríkisábyrgðina til félagsins þá er Icelandair skilgreint sem kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Áhrif þess á væntan hagvöxt undirstrika það.“