A. Ceferin, forseti UEFA.
A. Ceferin, forseti UEFA.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er ekki með í pípunum að breyta fyrirkomulagi EM karla næsta sumar, en mótið verður spilað í tólf mismunandi borgum.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er ekki með í pípunum að breyta fyrirkomulagi EM karla næsta sumar, en mótið verður spilað í tólf mismunandi borgum. Átti það upprunalega að fara fram síðasta sumar, en var frestað um eitt ár vegna kórónuveirunnar og áhrifa hennar.

Franska dagblaðið Le Parisien greindi frá því á dögunum að sambandið væri að íhuga að færa allt mótið til Rússlands vegna útbreiðslu veirunnar í Evrópu, en sambandið sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að stefnan væri enn sett á að leika í borgunum tólf.

„UEFA stefnir að því að halda EM með sama fyrirkomulagi og í sömu borgum og tilkynnt var fyrr á árinu. Við erum í samvinnu við alla gestgjafana í undirbúningi. Við einbeitum okkur að því að undirbúa mót í tólf borgum og með stuðningsmönnum,“ segir í yfirlýsingunni.

Ísland mætir Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um sæti á lokamótinu í Búdapest 12. nóvember næstkomandi. johanningi@mbl.is