Anna Sigrún Baldursdóttir fæddist 5. nóvember 1970 í Stykkishólmi og bjó þar fram á unglingsár þar til hún fór í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Það er gott samfélag í Stykkishólmi, mikið listalíf og maður nýtur enn þá stuðnings frá gömlum nágrönnum og vinafólki mömmu og pabba, sem ég kalla stundum stuðningssveitina mína í Hólminum.“
Eftir tvö ár í Reykjavík hóf Anna Sigrún búskap með æskuástinni, Jóni Þór Sturlusyni. Þau höfðu verið í sama bekk í grunnskólanum í Stykkishólmi, en Jón Þór flutti þangað tíu ára gamall. „Við tókum þátt í uppsetningu á söngleiknum Gretti og þá kviknaði ástin,“ segir Anna Sigrún.
Anna Sigrún útskrifaðist frá FB árið 1990 og lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1995. „Ég starfaði sem gangastúlka hjá St. Franciskussystrum í Hólminum sumarið 1986 og fann strax að þessi vettvangur ætti vel við mig.“ Anna Sigrún tók einnig áfanga í guðfræði við HÍ og þegar þau Jón Þór fóru til Stokkhólms þar sem hann fór í doktorsnám, dýpkaði hún enn frekar svið sitt og nam siðfræði við Stokkhólmsháskóla.
„Ég hef mikinn áhuga á siðfræði og guðfræði því þar er svo margt sem kallast á við gildi hjúkrunar. Þegar mikið bjátar á vakna þessar djúpu tilvistarspurningar hjá fólki og það er mikilvægt að geta sinnt bæði líkamlegum og andlegum þörfum fólks.“
Anna Sigrún starfaði við hjúkrun á Landspítala og í Stokkhólmi til ársins 2002, en rak mönnunarfyrirtækið Liðsinni á árunum 2002-2007. „Ég kynntist sambærilegum fyrirtækjum í Stokkhólmi og ákvað að prófa þetta og það var skemmtilegt, en fann samt undir niðri að ég er opinber starfsmaður í grunninn, sem hljómar verr á íslensku en á ensku þar sem merkingin er þjónn samfélagsins.“
Anna vildi samt víkka svið sitt enn frekar og fór í MBA-nám í Háskólanum í Reykjavík og lauk því 2007, en þá bauðst henni að koma aftur á spítalann, og þá sem fjármálaráðgjafi. „Ég þáði það, því ég er Landspítalakona í hjarta mínu og þetta er staðurinn sem ég vil starfa á, þótt það geti verið ansi erfitt stundum, eins og núna.“ Hún segir námið hafa dýpkað skilning sinn á starfseminni en víð sýn hjúkrunar á viðfangsefnin er grunnstefið í öllu sem hún gerir.
Árið 2009 kom nýtt tilboð upp á borð þegar Anna Sigrún var beðin um að vera aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra og síðan aðstoðarmaður velferðarráðherra á árunum 2009-13. Anna Sigrún átti þó aftur eftir að fara á Landspítalann og hefur verið aðstoðarmaður Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, frá 2013. „Aðstoðarmennska er afar tímafrekt starf og gefst lítill og raunar enginn tími til tómstunda, bara engar tómar stundir,“ segir hún og hlær. „En starfið er skemmtilegt og fjölbreytt og Páll bæði góður vinur og yfirmaður. Ég reyni þó að eiga stundir með fjölskyldunni og svo nýt ég daglegrar útiveru með hundinum – þau næra mig.“
Árið 2014 fór fjölskyldan til Orlando í Flórída að skoða skemmtigarða. Þar sem hún og dæturnar stóðu í röð til að komast í aðalgræjuna fær Anna Sigrún skyndilega heilablæðingu. Sem betur fer var brugðist strax við og hún send með þyrlu til Gainesville þar sem hún var í tvær vikur á gjörgæslu. „Ég var mjög lánsöm, fékk góða þjónustu úti og mikinn stuðning heima. Hundurinn Röskva er bjargvætturinn minn og sá um endurhæfingu mína heima með daglegum gönguferðum og sparaði heilbrigðiskerfinu stórfé.“ Hún segir það hafa hjálpað að hún var í góðu formi en mikilvægast hafi þó verið að finna stuðning og velvilja fjölskyldu og vina. „Ég ber í sjálfu sér engin merki þess að hafa lent í þessu og er ótrúlega þakklát fyrir það. Því finnst mér enn þá mikilvægara fyrir mig að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins.“
Það þarf ekki lengi að tala við Önnu Sigrúnu til að heyra undirliggjandi húmor og lífsgleði. „Ég hef gaman af lestri bóka þótt þær hafi færst æ meira í hljóðbókaform og nýt þess að ræða þær í bókaklúbbnum mínum, Andans truntum, en það eru vinkonur mínar héðan af Landspítalanum. Við hittumst reglulega og erum yfirleitt með tvær bækur í gangi og ef maður hefur lokið við bækurnar, fær maður kampavínsglas, annars ekki. Það er því til mikils að vinna,“ segir hún og hlær.
Fjölskylda
Eiginmaður Önnu Sigrúnar er dr. Jón Þór Sturluson, f. 26.11. 1970, hagfræðingur. Foreldrar hans eru Bryndís Guðbjartsdóttir, f. 28.7. 1949, skrifstofumaður á Eyrarbakka og Sturla Jónsson, f. 20.6. 1948, húsasmíðameistari í Noregi. Fósturfaðir er Karl Dyrving búfræðingur, f. 19.11. 1939.Börn Önnu Sigrúnar og Jóns eru Sturla Karl, f. 20.8. 1995, d. 20.8. 1995; Guðrún Marta, f. 4.1. 1999, nemi í Listaháskóla Íslands, og Filippía Þóra, f. 4.10. 2002, nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Systkini Önnu Sigrúnar eru Bylgja Hrönn, f. 12.5. 1969, rannsóknarlögreglumaður, Álftanesi, og Þórný Alda, f. 20.7. 1975, hjúkrunardeildarstjóri HVE í Stykkishólmi.
Foreldrar Önnu Sigrúnar eru hjónin Baldur Ragnarsson, f. 19.9. 1941, vélstjóri og Guðrún Marta Jónsdóttir, f. 1.7. 1947, húsfreyja og verkakona. Þau eru búsett í Stykkishólmi og Flatey á Breiðafirði.